Gengistryggð lán eru ólögleg!

Ég fór á fund sl. fimmtudagskvöld hjá Hagsmunasamtökum Heimilanna þar sem kynnt var fyrirhuguð "hópmálsókn" gegn lánveitendum. Þar kom margt forvitnilegt fram eins og að þegar bankarnir hrundu í haust var peningum mokað inni svokallaða peningamarkaðssjóði á móti bréfum sem þá voru orðin verðlaus, upphæðin sem ríkið lagði í það voru 200 milljarðar af peningum skattgreiðenda, í því skyni að minnka tap þeirra sem áttu í umræddum sjóðum. Til samanburðar þá eru "erlendu" lánin sem nú eru að sliga mörg heimili "ekki nema" 190 milljarðar samtals, en þegar spurt er hvað sé hægt að gera í því verður fátt um svör hjá yfirvöldum. Þetta er því lýsandi dæmi um það óréttlæti að fjármagnseigendur eru varðir fyrir tapi en skuldarar látnir borga að fullu.

Lagalegu rökin sem kynnt voru fyrir málsókninni gengu með almennum hætti út á réttarstöðu lántakandans sem neytanda, gagnvart bankanum sem seljanda og veitanda fjármálaþjónustu. Er þar um að ræða keimlíka stöðu og í málum sem varða fasteignasala og þær skyldur sem þeir hafa gagnvart kaupendum og seljendum sem óháður og ábyrgur fagráðgjafi í viðskiptum. Sértæk rök varðandi ógildingu lánasamninga eru hinsvegar tvíþætt:

  1. Að með því að fella krónuna og eyðileggja verðlagsgrunninn hefðu bankar og fjármálafyrirtæki brotið þær forsendur sem lágu til grunvallar lánasamningum við viðskiptavini sína, og þar með orsakað forsendubrest sem ógildi sjálfkrafa gerða samninga þar að lútandi.
  2. Það sem mér þótti athyglisverðast, að gengistryggð lán og myntkörfulán eru í raun og veru ólögleg skv. 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þar er eingöngu heimilað að gengistryggja lán miðað við þann gjaldmiðil sem þau eru greidd í. Svo dæmi sé tekið þá var bíllinn minn verðlagður í krónum eins og lánsfjárhæðin gefur til kynna en ekki þeirri samsettu myntkörfu sem er á lánasamningnum, ég fékk aldrei nein Yen eða Evrur!

Samkvæmt þessu mætti líta svo á að þeir sem hafa tekið verðtryggð og ekki síst gengistryggð lán hjá bönkunum séu í raun og veru ekki löglega bundnir af lánasamningunum. Var fólk hvatt til þess á fundinum að skrifa ekki um neina nýja samninga (frystingar, lengingu, skuldbreytingu o.s.frv.) við bankana, nema með fyrirvara um lögmæti þeirra og réttarstöðu neytandans. Nánar um það á heimasíðu Hagsmunasamtaka Heimilanna. Ég læt fylgja með til fróðleiks umræddar lagagreiningar, ásamt athugasemdum með viðkomandi frumvarpi þar sem þetta með gengistrygginguna er áréttað skýrum orðum.

Tekið af vef Alþingis (ferill málsins):

Lög um vexti og verðtryggingu [úrdráttur]

... ... ...
VI. KAFLI
Verðtrygging sparifjár og lánsfjár.
13. gr. Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað. Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla.
14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár næsta mánuð á eftir. Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.
... ... ...
Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.
... ... ...
Um 13. og 14. gr.

Í 13. gr. frumvarpsins er fjallað um gildissvið kafla um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. 
Í 1. mgr. er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður. Frá 1960 var almennt óheimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Þessi almenna regla var tekin upp í lög nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl. („Ólafslög“). Með breytingum á þeim árið 1989 var þó heimilað að gengisbinda skuldbindingar í íslenskum krónum með sérstökum gengis vísitölum, ECU og SDR, sem Seðlabankinn birti. Þessi breyting var liður í auknu frelsi í gjaldeyrismálum á sínum tíma. Gengisbinding á grundvelli þessara vísitalna hefur notið takmarkaðrar hylli.
Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi. Talið er að samningar með viðmiðun við gengisvístölu á grundvelli ákvæðisins í vaxtalögum séu mjög fáir. Í bráðabirgðaákvæði IV er kveðið á um hvernig farið skuli með innstæður og samninga af þessu tagi sem þegar eru í gildi. ... ... ...
Nefndin sem samdi frumvarpið var þeirrar skoðunar að opinberar reglur um verðtryggingu fjárskuldbindinga þjónuðu fyrst og fremst þeim tilgangi að verja almennt sparifé og lánsfé landsmanna fyrir rýrnun af völdum innlendrar verðbólgu eins og hún er venjulega mæld, þ.e. sem meðaltalsbreyting á verði í stóru úrtaki vöru og þjónustu. ... ... ...

[Tilvitnun lýkur]

Tilgangur vísitölutengingar er semsagt ekki að verjast gegn gengissveiflum erlendra gjaldmiðla, heldur eingöngu innlendri verðbólgurýrnun lánsfjár. Það væri forvitnilegt að sjá niðurstöðuna ef mál af þessu tagi færi fyrir dómstóla. Lögmenn Laugardal vinna nú að undirbúningi slíkra málsókna með því markmiði að búa til dómafordæmi sem nýst gæti sem flestum lántakendum í sambærilegri stöðu. Þessu fylgir auðvitað talsverður kostnaður, enda er það ekki ókeypis að gerast aðili að málsundirbúningum, en gott framtak engu að síður. Vonandi mun réttlætið bara ekki flækjast í lögfræðilegum orðhengilshætti í þetta sinn, samningssvik eru lögbrot sem ber að refsa! Ég tek það fram að ég er ekkert að mæla sérstaklega með einu eða neinu, ég er ekki fagaðili á þessu sviði og ber því enga slíka ábyrgð. Hver og einn sem er í vandræðum með sín lán verður að gera það upp við sjálfan sig hvað er skynsamlegt að taka til bragðs, og í flestum tilvikum er það einstaklingsbundið.


mbl.is Óska eftir upplýsingum stjórnmálaflokka vegna bílalána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband