Icesave samningar brutu lög um ríkisábyrgð

Í nýrri skýrslu Rík­is­end­ur­skoðunar er fjallað um rík­is­ábyrgðir og end­ur­lán rík­is­sjóðs, og varað við því að ákvæðum laga um rík­is­ábyrgðir sé vikið til hliðar þegar slík­ar ábyrgðir eru veitt­ar eða þegar rík­is­sjóður veit­ir end­ur­lán, eins og dæmi eru um. Stofn­un­in hvet­ur fjár­mála- og efna­hags­ráðuneytið til að hafa til­gang og mark­mið lag­anna ávallt að leiðarljósi þegar það legg­ur fram til­lög­ur um rík­is­ábyrgðir eða end­ur­lán.

Af þessu tilefni er rétt að rifja upp að þegar til stóð að veitt yrði ríkisábyrgð á risavaxinni lántöku sjálfseignarstofnunar hér á landi (TIF) vegna innstæðna í einkareknum banka með alþjóðlega starfsemi (Icesave), voru í þrígang sett lög á Alþingi um ríkisábyrgðina. Engin þeirra tóku hinsvegar tillit til hinna sérstöku laga sem gilda um slíkar ábyrgðir.

Samkvæmt lögum nr. 121/1994 um ríkisábyrgð er ríkissjóði óheimilt að takast á hendur ríkisábyrgð nema að fullnægðum ákveðnum skilyrðum, sem hefðu aldrei getað verið uppfyllt með Icesave samningunum. Þar á meðal að starfsemin sé hagkvæm en í þessu tilviki var hún farin á hausinn, að ábyrgðarþegi leggi fram a.m.k. 20% af heildarfjárþörf eða í því tilviki yfir 250 milljarða en TIF átti aðeins 20 milljarða, að ábyrgðarþegi leggi fram viðeigandi tryggingar en þær voru engar í þessu tilviki, að ábyrgðin nemi ekki hærra hlutfalli en 75% af lánsfjárþörf en í þessu tilviki hefði það hlutfall orðið 100%.

Jafnframt kveða sömu lög á um að óheimilt sé takast á hendur ábyrgð fyrir aðila sem er í vanskilum við ríkissjóð eða Ríkisábyrgðarsjóð, og að ábyrgðarþegi skuli greiða í ríkissjóð áhættugjald er nemi 0,25–4,00% af höfuðstól ábyrgðarskuldbindingar fyrir hvert ár lánstímans miðað við áhættu af ábyrgðinni. Í því tilviki sem hér um ræðir hefði ábyrgðin óhjákvæmilega þurft að flokkast í hæsta mögulega áhættuflokk, en 4% af 675 milljörðum vegna lágmarks innstæðutryggingar eru 27 milljarðar. Það er meira en allar eignir sem TIF átti á þeim tíma og var því augljóst að sjóðurinn hefði samstundis staðið í vanskilum með ábyrgðargjaldið. Undir þeim kringumstæðum var veiting ríkisábyrgðar því óheimil.

Það skal að lokum tekið fram að hér er eingöngu fjallað um þau sjónarmið er lúta að lögum um ríkisábyrgð og hvernig þau hefðu átt að hindra veitingu ríkisábyrgðar vegna svokallaðra Icesave samninga. Hinsvegar reyndi aldrei á þau sjónarmið við úrlausn málsins, heldur var leyst úr því eftir reglum EES um innstæðutryggingar í dómsmáli fyrir EFTA-dómstólnum. Þær reglur ganga lengra og banna sérstaklega ríkisábyrgð á innstæðutryggingakerfinu auk þess sem ríkisábyrgð á einkarekstri brýtur almennt gegn samkeppnisreglum EES-svæðisins, enda vannst fyrir vikið góður og sannfærandi sigur í því dómsmáli.

Niðurstaðan er sú sama hvernig sem á það er litið, hvort sem er á grundvelli reglna um innstæðutryggingar, samkeppnisreglna EES, vanheimild ráðherra til að skuldbinda ríkið án heimildar á fjárlögum, eða skilyrða laga um ríkisábyrgð. Það er að segja, að allar tilraunir til að veita ríkisábyrgð vegna Icesave innstæðna voru gjörsamlega kolólöglegar.


mbl.is Varhugavert að víkja lögunum til hliðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband