Ólöglegt á Íslandi

Ryan Gra­ves, yf­ir­maður alþjóðastarf­semi Über, er staddur hér á landi til að sækja ráðstefnu um nýsköpun. Við það tilefni hét hann því að fyrirtækið myndi hefja starfsemi hér á landi, þó ekki virðist hafa fylgt því nein tímamörk.

Eins og viðskiptalíkani Über hefur verið lýst, þá rekur fyrirtækið sjálft ekki leigubíla og selur ekki leigubifreiðaþjónustu, heldur tengir saman bílstjóra og farþega gegnum vefinn. Þá hefur einnig komið fram í umfjöllun um starfsemina að ekki séu gerðar ríkari kröfur til bílstjóra en að þeir hafi almenn ökuréttindi og bíl til umráða.

Samkvæmt íslenskum umferðarlögum er það hinsvegar skilyrði þess að mega stunda tilteknar tegundir aksturs, að hafa til þess tilskilin ökuréttindi. Þannig er það skilyrði þess að mega stjórna vinnuvélum að hafa til þess aukin ökuréttindi, og það sama á við um flutning farþega í atvinnuskyni, hvort sem er að ræða hópferðabíla eða fólksbíla.

Til þess að aka með farþega gegn gjaldi á Íslandi þarf að sækja um réttindi til þess hjá Umferðarstofu samkvæmt skilyrðum laga um leigubifreiðar. Í þeim lögum er einnig kveðið á um að starfsemi leigubílastöðva sé háð útgáfu starfsleyfis frá Umferðarstofu. Samkvæmt lögunum mega ekki aðrir stunda leiguakstur en þeir sem hafa til þess atvinnuleyfi, og fyrirtæki mega ekki starfrækja slíka þjónustu nema hafa starfsleyfi sem leigubílastöð.

Af ummælum Graves má samkvæmt þessu ráða að hann virðist ekki hafa kynnt sér íslenskt lagaumhverfi nógu vel, því starfsemi samkvæmt viðskiptalíkani Über rúmast einfaldlega ekki innan íslenskra laga. Eingöngu handhafar atvinnuleyfa til leiguaksturs mega stunda slíka atvinnu hér á landi og einu fyrirtækin sem mega miðla slíkri þjónustu eru þau sem hafa aflað sér starfsleyfi sem leigubílastöð.

Über er ekki leigubílastöð og bílstjórar á vegum fyrirtækisins eru ekki leigubílstjórar, en þeim er fyrir vikið óheimilt að stunda og starfrækja leigubifreiðaþjónustu á Íslandi. Ekkert væri því til fyrirstöðu að fyrirtækið stofnaði dótturfélag á Íslandi sem myndi sækja um leyfi til að starfa sem leigubílastöð með löggilda leigubílstjóra á sínum snærum. Þá væri það hinsvegar ekki starfsemi samkvæmt viðskiptalíkani Über, heldur yrði það einfaldlega ný leigubílastöð sem nyti ekki meiri sérstöðu en aðrar slíkar.

Í ljósi þessa verður að teljast ólíklegt að Graves haldi loforð sitt um "Über á Íslandi".


mbl.is Lofar Uber í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Það sem ekki allir gera sér grein fyrir farþegar Uber eru ekki tryggðir ef þjónustan er bókuð í gegnum app. Svo er alla vega staðan hér í Bretlandi því í gluggum bílanna er tilkynning sem hljóðar nokkurn veginn svona:

"Not insured if not booked with an agent."

Erlingur Alfreð Jónsson, 6.8.2015 kl. 14:05

2 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Leiðrétting:

Það sem ekki allir gera sér grein fyrir er að farþegar Uber eru ekki tryggðir ef þjónustan er bókuð í gegnum app. Svo er alla vega staðan hér í Bretlandi því í gluggum bílanna er tilkynning sem hljóðar nokkurn veginn svona:

"Not insured if not booked with an agent."

Erlingur Alfreð Jónsson, 6.8.2015 kl. 14:06

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Lögboðin ábyrgðartrygging vegna skráðrar leigubifreiðar er miklu dýrari en trygging fyrir venjulegan fjölskyldubíl, einmitt vegna þeirrar ríku ábyrgðar sem hvílir á leigubílstjórum.

Þess vegna er alls ekki heimilt að stunda slíkan akstur nema á skráðum leigubifreiðum með bílstjóra sem hefur atvinnuleyfi. Það er til að tryggja öryggi farþega með leigubifreiðum.

Sá sem stundar slíkan akstur án tilskilinna leyfa væri því í raun að fremja sama brot og sá sem myndi aka fjölskyldubílnum sínum próflaus og ótryggður, sem eins og allir vita er ólöglegt.

Guðmundur Ásgeirsson, 6.8.2015 kl. 14:20

4 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Gekk fram hjá Uber leigubíl í dag og á hliðinni var rautt skilti sem á stóð: "Insurance invalid unless booked with operator"

Erlingur Alfreð Jónsson, 6.8.2015 kl. 18:05

5 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Meira hæbið með þetta uber...við erum með uber á Íslandi...kallast skutlarar.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 6.8.2015 kl. 20:20

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er líka ólöglegt, af nákvæmlega sömu ástæðum.

Guðmundur Ásgeirsson, 6.8.2015 kl. 22:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband