Evran er ekki stöðugur gjaldmiðill

Evran er gjaldmiðill gefinn út af hlutafélagi til heimilis í Frankfürt í Þýzkalandi og notaður sem lögeyrir 19 þjóðríkja. Sum þeirra búa við talsverðan stöðugleika og hafa gert það lengi vel. Önnur þeirra búa við óstöðugleika, bæði efnahagslegan og pólitískan, og í sumum þeirra eru mannréttindi jafnvel ennþá talin nýmæli.

Þetta er alls ekki gagnrýni á nein þeirra ríkja og síst af öllu þau þeirra sem eru komin skammt á veg en eru þó að fikra sig í átt til nútímalegra lýðræðis og borgaralegra réttinda. Ágætis dæmi eru löndin í austurhluta Evrópu sem voru lengi vel undir stjórn kommúnista og sovéskum áhrifum, en fyrir þau er Evrópusambandsaðild skref fram á við.

Það er hinsvegar staðreynd að stöðugleiki er afar misjafn og aðstæður ólíkar í mismunandi löndum evrusvæðisins. Þetta misræmi hefur orðið enn meira áberandi í efnahagskrísunni sem nú hefur geysað um helming þess tíma sem liðinn er frá því að evran var tekin í notkun hjá fyrstu löndum myntbandalagsins um síðustu aldamót.

Vandamálið er ekki endilega að þau ríki sem stofnuðu til myntbandalagsins búi við mikinn óstöðugleika, heldur að þau búa við allt annan efnahagslegan og pólitískan veruleika en mörg þeirra ríkja sem síðar fengu aðild. Óstöðugleikinn er því ekki endilega sprottinn frá ríkjunum sjálfum, heldur myndast hann í samstarfinu á milli þeirra, þegar þau geta ekki komið sér saman um hverskonar sameiginlega peningastefnu skuli reka.

Þar sem evran er ekki byggð á traustum efnahagslegum grundvelli, heldur fyrst og fremst pólitískri ákvarðanatöku, leiðir af því að óstöðugleiki í þeirri pólitík er um leið óstöðugleiki gjaldmiðilsins. Núna er það pólitíska samstarf brostið með afleiðingum sem hafa ekki aðeins áhrif innan myntbandalagsins heldur einnig á aðliggjandi ríki, til dæmis Sviss og Danmörku sem hafa bæði þurft að grípa til óhefðbundinna úrræða beinlínis til þess að verjast óhóflegu innstreymi vegna fjármagnsflótta frá evrusvæðinu.

Sumar pólitískar hreyfingar á Íslandi hafa byggt stefnu sína á því að ætla að koma hér á efnahagslegum stöðugleika með því að taka upp "stöðugan gjaldmiðil" eins og það hefur verið kallað. Nokkuð ljóst er orðið að evran er ekki sá gjaldmiðill og mun aldrei geta orðið það, síst af öllu frá íslenskum bæjardyrum séð. Það er nefninlega algjör misskilningur að stöðugleiki snúist einungis um gengisskráningu, auk þess sem að fullkominn stöðugleiki (réttara sagt kyrrstaða) er ekki endilega alltaf æskilegt ástand.

Jafnvel með sinn eigin gjaldmiðil og smávaxið peningakerfi í samanburði við löndin í kring, og þrátt fyrir nánast allsherjar hrun bankakerfisins, hefur aldrei komið til þess í seinni tíð á Íslandi að bankakerfinu í heild sinni hafi hreinlega verið lokað þannig að innstæður almennings hafi orðið óaðgengilegar. Það hefur hinsvegar orðið raunin í tveimur evrulöndum nýlega, fyrst á Kýpur árið 2013 og nú í Grikklandi.

Þar sem Grikkir eru ekki fullvalda í peningamálum heldur háðir duttlungum hins þýzka útgáfufélags evrunnar, mega þeir ekki prenta evrur til að tryggja innstæður í þeim gjaldmiðli heldur þurfa að reiða sig alfarið á innstæðutryggingakerfið sem byggist á reglum Evrópusambandsins. Bankainnstæður þar í landi eru á bilinu 130-200 milljarðar evra og þar af falla um 60% undir tryggingarvernd, en eignir tryggingasjóðs grískra innstæðueigenda (HDIGF) eru ekki nema rúmir 4 milljarðar evra. Til að bæta gráu ofan á svart er meira en helmingur þeirra í formi innstæðna í sömu bönkunum og núna eru lokaðir!

Loks er það fíllinn í herberginu sem engir af ráðamönnum evruríkjanna hafa viljað ræða um opinberlega, en það er sú staðreynd að kröfur evrópska seðlabankans á hendur Grikklandi og grískum bönkum nema nú hærri fjárhæðum en allt eigið fé bankans ásamt varasjóðum. Lendi Grikkland í greiðslufalli fara allar þessar "eignir" sjálfkrafa í ruslflokk og verða þar með einskis virði. Við endurmat á virði þeirra yrði því eigið fé evrópska seðlabankans neikvætt eða með öðrum orðum færi hann lóðbeint á hausinn.

Ekkert af framantöldu eru einkenni stöðugs gjaldmiðils.


mbl.is Grískir bankar lokaðir alla vikuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og hvaða framtíðar sýn ertu með í sambandi við gjaldmiðil á Íslandi...??

Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 29.6.2015 kl. 16:26

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er nú þegar gjaldmiðill í umferð á Íslandi og þetta er því vægast sagt undarleg spurning. Svolítið eins og að spyrja: Hvaða framtíðarsýn ertu með í sambandi við raforkudreifikerfi á Íslandi? Svarið er augljóslega að við höfum slíkt kerfi nú þegar sem við munum halda áfram að nota og mun áfram þarfnast viðhalds og uppbyggingar eftir því sem mannfjöldi eykst og þjóðarbúið vex.

Hverskonar svari varstu annars að fiska eftir?

Guðmundur Ásgeirsson, 29.6.2015 kl. 16:43

3 identicon

Enginn gjaldmiðill er stöðugur og allra síst í Evrópu. Norska krónan hefur gefið mjög eftir undanfarið og breska pundið hefur líka tekið sínar dýfur. Þessir þrír gjaldmiðlar eru þó algjörlega rock-solid miðað við það sem gerist þegar íslenska krónan missir beltið og axlaböndin

Matthías (IP-tala skráð) 29.6.2015 kl. 19:51

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hvað gerist þá og hvaða belti og axlabönd ertu að meina?

Guðmundur Ásgeirsson, 29.6.2015 kl. 20:35

5 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Og US dollar er ekki bréfsins virði sem hann er prentaður á.

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 29.6.2015 kl. 23:12

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

En ef blekið er talið með? wink

Guðmundur Ásgeirsson, 29.6.2015 kl. 23:25

7 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Blekið er í láni frá Kína.

Kveðja frá HoustoN

Jóhann Kristinsson, 29.6.2015 kl. 23:29

8 Smámynd: Snorri Hansson

Takk fyrir alveg afburða góða grein.

Snorri Hansson, 30.6.2015 kl. 01:17

10 Smámynd: Ómar Gíslason

Takk fyrir mjög góða grein Guðmundur. Mynt verður að endurspegla hagkerfið í landinu sem hún tilheyrir.

Ómar Gíslason, 30.6.2015 kl. 08:41

11 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir mjög góða og skilmerkilega grein Guðmundur.

Svo er ágætt að hafa það í huga varðandi íslensku krónuna, að þó svo að hún hafi fallið um 99,999999% miðað við þá dönsku frá því að hún var skilin frá henni árið 1919, þá gagnaðist íslenska við að koma íslendingu á heimsmets hraða inn í 20.öldina.

Í margar aldir þar á undan gekk hvorki né rak við að komast út úr moldarkofunum þrátt fyrir stöðuga danska krónu og þar áður skandinavískan ríkisdal.

Magnús Sigurðsson, 30.6.2015 kl. 14:20

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Magnús, þú freistaðir mín með stærðfræði, svo ég stóðst ekki mátið að leggjast í smá útreikninga og hér eru niðurstöðurnar:

Miðgengi danskrar krónu er í dag 19,738 íslenskar krónur samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands. Samkvæmt því hefur sú íslenska misst tæp 95% af verðgildi sínu miðað við þá dönsku á 96 árum.

Það jafngildir því að ársverðbólga á Íslandi hafi að jafnaði verið rétt rúmlega 3,2% hærri en í Danmörku á sama tímabili.

Á sama tíma hefur Bandaríkjadalur rýrnað um rúmlega 98,2%, en til að setja það í samhengi, myndi sambærileg rýrnun íslenskrar krónu jafngilda genginu 56,855 gagnvart dönsku krónunni, eða meira en helmingi lægra heldur en núverandi gengi íslenskrar krónu.

Þetta eru umhugsunarverðar niðurstöður!

Guðmundur Ásgeirsson, 30.6.2015 kl. 18:02

13 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Örfáar prósentur til eða frá breyta engu um staðreyndir málsins Guðmundur, sem eru þær að það hefur enginn gjaldmiðill þjónað íslendingum betur en íslenska krónan.

En ánægjulegt engu að síður hvað krónan er sterkur gjaldmiðill í alþjóðlegum samanburðilaughing

Magnús Sigurðsson, 30.6.2015 kl. 21:05

14 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Já og ekki gleyma því að það er til annar gjaldmiðill á Íslandi sem er bókstaflega sá stöðugasti í öllum heiminum en það er verðtryggða krónan. Hún er reyndar ekki lögeyrir en samt reiknieining, alveg eins evran var búin að vera í mörg ár áður en byrjað var að prenta hana og slá í málskífur.

Reyndar hef ég aldrei skilið almennilega hvers vegna stjórnmálamenn sem tala um að taka þurfi upp "stöðugan gjaldmiðil" hafa aldrei stungið upp á því að Seðlabanka Íslands verði falið með lögum að hefja útgáfu á verðtryggðum íslenskum krónum (VÍK)?

Guðmundur Ásgeirsson, 30.6.2015 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband