Ekki lyklafrumvarp

Forsætisráðherra var inntur eftir því á Alþingi í dag hvort von væri á lyklafrumvarpi sem margoft hefur verið lofað að muni koma fram. Hann svaraði með því að benda á frumvarpsdrög sem liggja frammi til umsagnar á vefsíðu innanríkisráðuneytisins. Einnig hélt hann því fram að svar innanríkisráðherra fyrr í vikunni á þá leið að ekkert slíkt frumvarp væri í vinnslu hjá ráðuneyti hennar hefði verið misskilið.

Þessar skýringar eru því miður bæði misvísandi og villandi. Frumvarp það sem um ræðir er alls ekkert lyklafrumvarp, og sá sem heldur slíku fram talar annað hvort gegn betri vitund eða skortir hana. Staðreyndin er sú að umrætt ákvæði frumvarps þessa felur í sér tillögu um styttingu á fyrningarfresti þeirra krafna sem ekki fást greiddar af söluandvirði eignar á nauðungarsölu, úr fjórum árum í tvö ár.

Breyting samkvæmt tillögum þessum er vissulega dálítil réttarbót fyrir þolendur nauðungarsalna, en lyklafrumvarp er það alls ekki. Til skýringar á því hvað átt er við með lyklafrumvarpi, þá snýst það í meginatriðum um að ekki sé hægt að krefja skuldara fasteignaveðláns um meiri efndir en sem felast í verðmæti hinnar veðsettu eignar. Með öðrum orðum sé hægt að skila lyklunum og afhenda eignina gegn ráðstöfun hennar upp í áhvílandi skuldir án frekari eftirmála. Það sem eftir stendur er svo afskrifað.

Frumvarp það sem forsætisráðherra vísaði til, felur ekki í sér annað en styttingu á fyrningarfresti eftirstæðra krafna í tvö ár. Engu að síður munu kröfuhafar geta hundelt skuldara í tvö ár, gengið að öllum öðrum eignum þeirra og knúið þá í gjaldþrot, eða framlengt útlegðina með árangurslausu fjárnámi, sem er enn erfiðara að komast út úr.

Jafnframt skýtur það skökku við, fyrst að forsætisráðherra heldur því fram að hið margumtalaða lyklafrumvarp sé nú loks að líta dagsins ljós, að drög þessi hafa legið fyrir á vef innanríkisráðuneytisins allt frá 6. febrúar síðastliðnum! Það er einhver "undarlegur pólitískur leikur" hjá innanríkisráðherra að birta lyklafrumvarp sem allir bíða eftir í ofvæni, og segja svo ekki einu sinni frá því fyrr en að rúmum þremur vikum liðnum eftir að hafa verið þráspurð og þverneitað, og í stað þess að skýra stolt frá því í ræðustól Alþingis og í fjölmiðlum næstu kvöld þar á eftir, að senda forsætisráðherra það í einkaskilaboðum sem hann kemur svo á framfæri í síðbúnu andsvari við allt annarri fyrirspurn.

Aðeins tvær mögulegar skýringar koma til greina: Annars vegar að blessað fólkið kunni ekki fótum sínum forráð, hvorki pólitískt né í stjórnsýslustörfum sínum. Hins vegar að um hreinar eftiráskýringar sé að ræða, til þess að draga dul á að það sé í raun ekki von á neinu sérstöku lyklafrumvarpi. Þess í stað eigi að hraða eignaupptökunni með því að stytta þann tíma sem kröfuhafar fá til að flá fólk inn að beini.

Þessi skringilega staða sem stjórnvöld hafa nú skapað með þessum axarasköftum sínum, er í raun stórkostlegt sóknartækifæri fyrir stjórnarandstöðuþingmenn. Nú er ekkert því til fyrirstöðu að þeir taki sig saman og leggi sjálfir fram lyklafrumvarp, og láti reyna á það með áberandi hætti hversu margir stjórnarliðar treysti sér til þess að greiða atkvæði gegn því og svíkja kjósendur sína.

Það þarf ekki einu sinni að semja frumvarpið, því hérna er tilbúin útfærsla á því sem tengir jafnframt veðandlagið við þróun fasteignaverðs og deilir þannig áhættunni af þróun á mörkuðum milli lánveitanda og lántaka:

1. gr. Lánveitanda, sem veitir neytanda lán gegn veði í fasteign sem ætluð er til lögheimilis, er ekki heimilt að leita fullnustu fyrir kröfu sinni í öðrum eignum lántaka en sem nema þeim eignarhluta sem lánað var til nema krafa hafi stofnast vegna saknæmra athafna lántaka. Með eignarhluta sem lánað var til er átt við hlutfall af uppgjörsverðmæti fullnustueignar sem svarar til þess hlutfalls kaupverðs sem fengið var að láni við kaup hennar eða matsverðs við endurfjármögnun. Krafa lánveitanda á neytanda skal falla niður ásamt áföllnum lántökukostnaði og öðrum gjöldum, þó svo uppgjörsverðmæti fullnustueignarhluta nægi ekki til fullnaðargreiðslu hennar.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi

Að lokum er þeirri áskorun hér með beint til allra þingmanna, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, að flytja frumvarp þessa efnis á Alþingi.


mbl.is „Eins konar“ lyklafrumvarp komið fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki hægt að orða þetta betur.

Skil bara ekki, af hverju

er ekki hægt að ljúka þessu strax...???

Af hverju 2 ár...???

Eins og það hjálpi eitthvað fyrir fólk á ystu brún..??

Enn og aftur, hafa fjármálaöflin vinningin í því

að koma fólki til andskotans.

Fjármálaöflin 1. Stjórnmálastéttinn -0.

Eigum við ekki bara að endurtaka sama leikin í

næstu kosningum..??

Svo virðist að Íslendingum líði best í þessari

endalausri ánauð þessara 4 flokka.

Kjósum sama aftur. Þá hlýtur allt að batna.

Eða hvað..???

Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 2.3.2015 kl. 21:24

2 identicon

Vel mælt!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 3.3.2015 kl. 09:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband