Engin þörf á lögum um staðgöngumæðrun

Að undanförnu hefur skapast umræða um svokallaða staðgöngumæðrun hér á landi, sem felur það í sér að gerður er samningur við tilvonandi móður um að í stað þess að hún muni eiga og ala barnið upp sjálf, muni hún þess í stað gefa það þeim foreldrum sem samninginn gera við hana. Oft er annað þeirra í raun líffræðilegt foreldri viðkomandi barns, en hitt ekki, og er ófrjósemi algengasta ástæða þess að fólk grípur til þessa ráðs svo það geti orðið foreldrar þrátt fyrir að geta ekki sjálft alið börn.

Ekki nóg með það heldur hefur verið stofnað sérstakt félag um málstaðinn, Staðganga. Þessi umræða hefur nú náð æðstu hæðum, þar sem sjálfur heilbrigðisráðherra hefur gripið hana á lofti og jafnvel lýst yfir vilja til þess að hlutast til um að foreldrar sem ákveða að fara þessa leið, að eignast barn með staðgöngumóður, geti orðið löglega skráðir foreldrar þeirra barna sem þannig séu getin með samþykki allra hlutaðeigandi.

Velvilji ráðherrans hefur nú gengið svo langt að hann hefur jafnvel lýst yfir vilja til þess að beita sér fyrir sérstakri lagasetningu um þessa svokölluðu "staðgöngumæðrun". Þetta er hinsvegar allt saman á misskilningi byggt, því það er nákvæmlega engin þörf á nýrri eða sérstakri lagasetningu af þessu tilefni. Að þessu leyti eru bæði umrædd samtök sem og ráðherrann, því miður alveg úti á þekju í þeirri umræðu.

Það sem samtökin Staðganga og heilbrigðisráðherrann þurfa einfaldlega að gera er að lesa lög nr. 130/1999 um ættleiðingar og byrja svo að starfa samkvæmt þeim:

http://www.althingi.is/lagas/nuna/1999130.html

Nákvæmlega engin þörf er á nýjum lögum um þetta efni.


mbl.is Mikil þörf fyrir lög um staðgöngumæðrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þér hefur sézt yfir þessa málsgrein 3 gr.

Eigi er manni heimilt að ættleiða kynbarn sitt, nema það hafi verið ættleitt áður og ættleiðing af hálfu kynforeldris þyki bæta hag barnsins.

Ef málið væri svona einfalt og þú heldur þá væri það ekki á gráu svæði siðfræðilega. Að við séum að ryðja þessu braut er skammarlegt. Barnlaust fólk hefur ótal leiðir til að velja úr og þar á meðal ættleiðingar. Að leigja líkama með legi er lágkúra og siðleysi af verstu sort. Verra en vændi eða mansal.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.2.2015 kl. 22:34

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þú ert að misskilja, þetta ákvæði á við í þeim tilvikum sem kynforeldrar hafa áður gefið börn sín frá sér til ættleiðingar en vilja síðar fá þau aftur, til dæmis vegna breyttra aðstæðna.

Það þarf hinsvegar enginn að ættleiða sitt eigið kynbarn, heldur þarf hann samkvæmt barnalögum ekki að gera anna en að gangast við því svo að barnið verði rétt feðrað.

Staðgöngumæðrun snýst eðli málsins samkvæmt um móðurina, sem er í slíkum tilvikum ekki kynmóðir barnsins í tæknilegum skilningi, jafnvel þó hún hafi í mörgum slíkum tilvikum getið af sér egg sem er frjóvgað og borið til fæðingar af annari konu: staðgöngumóður.

Þá er hinsvegar ekkert því til fyrirstöðu að ætluð móðir barnsins geti ættleitt það og þar með einnig orðið móðir þess í lagalegum skilningi. Barnalög kveða jafnvel á um sérstaka heimild stjúpforeldra til að ættleiða stjúpbörn ef samþykki kynforeldris eða annars lögmæts forsjáraðila liggur fyrir.

Eftir að hafa greint viðfangsefnið er niðurstaðan sú að það hefur nú þegar verið leyst, fyrir a.m.k. 35 árum síðan.

Guðmundur Ásgeirsson, 9.2.2015 kl. 22:58

4 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þetta snýst líka um forræði föðurins. Við staðgöngumæðrun gæti faðirinn þurft að höfða forræðismál til að fá lagalega stöðu :)

En svona er hægt að þvæla mál sem engin þörf er á ef við höfnum þessari leið alfarið. Ef lögin heimila ekki svona tegund fjölskyldu þá þarf ekkert að beita lagatækni

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 10.2.2015 kl. 00:18

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þú ert ennþá ekki að skilja.

Faðirinn þarf ekki annað en gangast við barninu til að feðra það löglega ef allir aðrir hlutaðeigandi eru sammála því.

Það er alltaf hægt að þvæla mál ef vilji til þess er fyrir hendi.

Það sem ég er að benda á er að það er óþarfi í þessu tilviki.

Lögin heimila algjörlega þessa tegund fjölskyldu. Ég get sjálfur vitnað um það, hafandi verið löglegt staðgöngubarn beggja staðgönguforeldra minna frá því þau ættleiddu mig árið 1978.

Það var einfaldlega gert í samræmi við íslensk lög.

Svo skiptir engu máli hvað þú kýst að kalla það. Nema þú viljir reyna að halda því fram að ég sé ekki sonur foreldra minna!

Guðmundur Ásgeirsson, 10.2.2015 kl. 00:35

6 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Skrýtið ef þú einn hefur réttan skilning Guðmundur. Það var sem sagt engin þörf fyrir vinnu alls fjölda vel menntaðra lögfræðinga sem komu að samningu frumvarpsins. Og enn berast samt fréttir af óvissuatriðum í svona meðgöngu einkum varðandi réttarstöðu barnanna. En þú veizt betur en allir í þinni eigin sjálfsupphafningu. Til hamingju með það.  Ég er viss um að þú getur miðlað prófessorunum í lagadeildinni af vizkubrunni þínum.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 10.2.2015 kl. 21:26

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Já og þeir mér af sínum. Lögfræði byggist nefninlega á samtali, ekki páfagaukalærdóm. Sá sem er aldrei ósammála kennaranum er sennilega ekki besti tilvonandi lögfræðingurinn í bekknum hjá honum.

Það sem ég hefði mestan áhuga á að vita er: hvað í veröldinni er eiginlega vandamálið? Fyrst ég hef í áratugi getað verið löglegur sonur foreldra sem hvorugt er kynforeldri mitt, hef ég brennandi áhuga á að vita hvers vegna aðrir geta það ekki, sérstaklega þegar annað foreldrið er meira að segja raunverulegt kynforeldri?

Ef einhver getur útskýrt það fyrir mér skal ég éta þetta allt saman ofan í mig og kannski kæmi þá eitthvað gagnlegt út úr því.

Ef vandamálið er ekki annað en að um svo obboslega erfitt, flókið, langdregið og átakanlegt ferli sé að ræða, þá er ég með fréttir: það er ættleiðing líka, og svo er ekki heldur eins og "náttúrulega leiðin" sé eins og að drekka vatn eða taki mikið undir 9 mánuðum!

Ég hef fulla samúð með þeim sem raunverulega vilja eignast börn og eru tilbúin að leggja það á sig sem fylgir því. Þess vegna langar mig einmitt að vita hvers vegna það er ekki nóg.

Það hefur nefninlega ekkert haldbært komið fram í umræðum um þessi mál sem hjálpar mér að skilja nákvæmlega hvað það er sem hindrar fólk sem vill eignast barn með hjálp annarra frá því að gera það. Sérstaklega þegar til staðar er móðir (staðgöngumóðir) sem er meira að segja tilbúin að láta frjóvga sig með ókunnugum frumum gagngert til þess að ala barnið og gefa tilteknum hjónum það svo til ættleiðingar? Ef eitthvað er myndi maður halda að það væri auðveldara en venjuleg ættleiðing, því ef móðirin og barnið eru þegar tilbúin þá er bara hægt að hefja meðgönguna strax og svo hefur maður 9 mánuði til að fylla út pappírana.

Vill einhver vinsamlegast segja mér hvar hindrunin liggur?

Kannski lögfræðingar sem eru alls ekki starfi sínu vaxnir?

Þeir eru nefninlega gjarnan stærsta hindrunin í sifjamálum!

Guðmundur Ásgeirsson, 10.2.2015 kl. 23:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband