Launahækkanir valda ekki verðbólgu

Karl Garðarsson þingmaður Framsóknarflokksins segist hafa áhyggjur af því að samningar lækna um launahækkanir muni hafa keðjuverkandi áhrif og leiða til launahækkana fleiri stétta. Flestum stéttum þætti líklega jákvætt að fá launahækkun. Þingmaðurinn finnur þessu hinsvegar það til foráttu að hætta sé á að launahækkanir muni valda aukinni verðbólgu og hækkun verðtryggðra sem muni koma sér verr fyrir launþegana.

Það er í sjálfu sér virðingarvert hjá þingmanninum að honum standi ekki á sama um aukna verðbólgu og hækkun verðtryggðra lána sem því myndi fylgja. Það er hinsvegar rétt að skoða aðeins nánar hvort að þessar áhyggjur þingmannsins séu í raun á rökum reistar.

Verðbólga er skilgreind sem hlutfallsleg hækkun á vísitölu neysluverðs, og er algengast að miða við breytingu á undanliðnu 12 mánaða tímabili þegar talað er um núgildandi verðbólgu á hverjum tíma, eins og á til dæmis við um þær forsendur sem skylt er samkvæmt lögum að miða við þegar greiðsluáætlanir eru gerðar við útgáfu verðtryggðra lána. Fyrst að verðbólga fer eftir breytingum á vísitölu neysluverðs, þá er rétt að skoða hvaða þáttum hún samanstendur af.

Stærsti einstaki undirliður vísitölunnar er húsnæðisverð, en það ræðst af því verði sem er á húsnæði og leigumarkaði, sem er það verð sem seljendur húsnæðis og leigusalar setja upp eða samþykkja. Það ræðst hinsvegar ekkert endilega af launum, hvorki seljenda né kaupenda eða leigjenda, eins og sést best á því að þegar launavísitala hrapaði í kjölfar bankahrunsins koma það ekki fram sem samsvarandi lækkun húsnæðisverðs.

Aðrir liðir sem falla undir vísitölu neysluverðs eru verð á þeim vörum og þjónustu sem almenningur kaupir og inniheldur bæði nauðsynjavörur sem og ýmsar aðrar vörur og þjónustu sem venjulegt er að keypt sé á mörgum heimilum. Þetta getur verið allt frá brauði og mjólk, yfir í fatnað, heimilistæki og annað slíkt. Einnig kostnaður við samgöngur, bæði einkabíla og almenningssamgöngur, og inn í það allt saman reiknast að sjálfsögðu eldsneytisverð, bæði sem hluti af rekstrarkostnaði samgöngutækja sem og hluti af flutningskostnaði á þeim vörum sem um ræðir.

Ljóst er að verðlagning á vörum og þjónustu er ákveðin af kaupmönnum og stjórnendum þeirra fyrirtækja sem selja viðkomandi vörur og þjónustu, það er að segja atvinnurekendum en ekki launþegum. Eldsneytisverð er ákveðið af olíufélögum, þó að reyndar ráðist verðlagning þeirra aftur svo af innflutningsverði sem þau geta lítið stjórnað. Olíufélögin eru líka atvinnurekendur og einnig þeir sem þau kaupa inn olíu frá, og því ljóst að ákvarðanir um bensínsverð eru ekki teknar af launþegum.

Þriðji þátturinn sem spilar inn í vísitölu neysluverðs eru skattar og opinber gjöld, en breytingar á þeim endurspeglast gjarnan í ákvörðunum atvinnurekenda um verðlagningu, að minnsta kosti gera þær það undantekningalítið þegar um hækkanir er að ræða en annað er oft upp á teningnum með lækkanir sem kaupmenn taka gjarnan til sín frekar en að velta þeim út í verðlag. Ljóst er að ákvarðanir um skatta og opinber gjöld eru teknar af Alþingi og stjórnvöldum, en ekki af launþegum.

Af því sem að framan greinir má vera morgunljóst að það eru í engum tilvikum launþegar sem ákveða þau verð sem mæld eru í vísitölu neysluverðs, heldur eru það í öllum tilvikum aðilar sem ekki eru launþegar. Það er að segja, seljendur, leigusalar, kaupmenn, atvinnurekendur og hið opinbera. Þessir aðilar taka þær ákvarðanir um verðlagningu og gjöld sem geta haft áhrif á vísitölu neysluverðs.

Launþegar eru aftur á móti ekki í neinni stöðu til að taka ákvarðanir sem geta valdið breytingum á vísitölu neysluverðs. Þess vegna er útilokað að hækkun launa hjá launþegum geti leitt til þess að þeir taki einhverjar ákvarðanir sem valdi hækkun á vísitölu neysluverðs og auki þannig við verðbólgu. Þeir geta það einfaldlega ekki.

Því hefur oft og lengi verið haldið fram hér á landi að launahækkanir valdi verðbólgu, og það svo notað til að réttlæta það að halda launum almennings niðri. Þessa fullyrðingu hafa hinsvegar aldrei nokkurntíma verið færðar neinar sönnur á, enda er ekki hægt að sanna ósannindi. Eina rökræna leiðin til þess að launahækkanir hafi áhrif á verðbólgu er nefninlega sú, að atvinnurekendur (þar með talið hið opinbera) taki ákvörðun um að velta öllum launahækkunum beint út í verðlag. Það getur hinsvegar aldrei gerst sjálfkrafa, heldur þurfa atvinnurekendurnir alltaf að taka um það meðvitaða ákvörðun að hækka verðlag.

Launahækkun sem er strax velt út í verðlag er í raun engin launahækkun, og því ekki hægt að tala um að þá séu launahækkanir að valda verðbólgu. Þetta sést best ef við ímyndum okkur að það væri aðeins ein verslun í ríkiseigu sem seldi allan varning og þjónustu til neytenda og þá væri ríkið í raun eini atvinnurekandinn. Þá væru jafnframt starfsmenn þess þeir sömu og viðskiptavinirnir.

Ef þessi eini atvinnurekandi myndi ákveða að hækka laun starfsmanna, en um leið að hækka kostnað þeirra með samsvarandi vöruverðshækkunum, þá eru þeir jafnsettir og ef engin launahækkun hefði orðið. Þannig launahækkun er í raun engin launahækkun. Þó að þetta mælist vissulega sem verðbólga, þá er hana ekki að rekja til launahækkana því þær hafa í raun verið engar, heldur má rekja hana að öllu leyti til þeirrar ákvörðunar atvinnurekandans að velta launahækkuninni óskiptri út í vöruverð.

Þannig er það sú ákvörðun að velta launahækkunum út í verðlagningu sem er hin raunverulega orsök þess að verðlag hækkar og það mælist sem verðbólga. Þetta er ákvörðun sem atvinnurekandinn tekur en ekki launþegarnir, og er eflaust frekar í óþökk þeirra ef eitthvað er! Þannig er það ekkert annað en þjóðsaga að launþegar og hækkanir á tekjum þeirra geti valdið aukinni verðbólgu. Það er raunverulega eingöngu á færi atvinnurekenda, hins opinbera, og seljenda húsnæðis eða leigusala.

Karl Garðarsson, sá ágæti þingmaður, ætti því mun frekar að hafa áhyggjur af viðbrögðum atvinnurekenda við launahækkunum, heldur en gjörðum launþega sem geta engin áhrif haft á verðbólgu. Sé honum alvara með ummhyggjusemi sinni fyrir hagsmunum launþega, neytenda og heimila, ekki síst varðandi greiðslubyrði verðtryggðra skuldbindinga, ætti hann því að beina varnaðarorðum sínum að atvinnurekendum og jafnframt ríkinu sjálfu, en ekki að launþegum sem eru saklaus fórnarlömb í þessu samhengi og gjörsamlega áhrifalaus um breytingar á vísitölu neysluverðs og þar með á verðbólgu.


mbl.is Verðbólga fari af stað og lán hækki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Það þarf að ath að sögulega er 77% launahækkanna (þar til kom að síðustu samningum) velt út í verðlag.

Það eru aftur á móti fá ef einhver fyrirtæki með svo hátt hlutfall launa af kostnaði.

Raunhækkun hjá t.d. Högum átti ekki að vera umfram hlutfall launa af rekstrarkostnaði eða um 11,5%, þ.e.a.s. 10% launahækkun velt út í 1,15% hækkun vöruverðs.

Einnig gleymist að 11,7% styrking þröngrar viskiptavísitölu 2013 og aukning þar að um c.a. 0,5% 2014 ætti að dekka tuga prósenta hækkanir hjá allri verslun.

Hér gerist aftur á móti "dulítið skrýtið".... laun hækka um 2,8% almennt, gengi styrkist um 12% og vöruverð hækkar um 5,8% allt á sömu 2 árunum (2013 & 14)

Óskar Guðmundsson, 7.1.2015 kl. 17:21

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk fyrir innleggið.

Lykilpunkturinn í þessu er einmitt sá: að hversu miklu leyti launahækkunum er velt út í verðlag. Atvinnurekendur hafa ýmissa úrskosta völ í þeim efnum, til dæmis geta þeir alveg ákveðið að greiða starfsfólki sínu góð laun og skammta sjálfum sér aðeins minni hagnað í stað þess að velta öllu beint út í verðlagið. Þeir geta líka ákveðið að haga rekstri sínum þannig að draga sem mest úr fjármagnskostnaði, sem er stærsti einstaki undirliðurinn í verði vöru og þjónustu.

Annað atriði sem er ekki síður veigamikið er samspil atvinnulífsins og fjármálafyrirtækisins, það er að segja banka og annarra lánveitenda. Það er staðreynd að sögulega hefur fjármagnskostnaður á Íslandi verið allt of hár. Hvort sem litið er til verðtryggingar eða vaxta, þá erum við einfaldlega að borga allt of mikið fyrir afnot af peningum. Þeir sem móttaka þær greiðslur eru bankarnir.

Hinsvegar er engin sérstök ástæða til þess að hafa þetta þannig, við yrðum ekkert fátækari þó fjármagnskostnaður yrði lækkaður, heldur yrði það þvert á móti almenningi og atvinnulífinu til hagsbóta. Þeir sem einu sem gætu mögulega misst spón úr sínum aski eru fjármálaöflin, sem græða á vaxtatöku, og græða þó nú alveg nóg hvort sem er. Það sést svo vel á málflutningi manna um þessi mál, hvorumegin hryggjar þeir standa í afstöðu sinni og fyrir hvaða hagsmunum þeir raunverulega tala.

Guðmundur Ásgeirsson, 7.1.2015 kl. 17:54

3 identicon

Það eru til tvær tegundir af verðbólgu annarsvegar svökölluð kostnaðarverðbólga og hinsvegar eftirspurnarverðbólga.  Það er misjafnt hvað setur af hvora tegundina fyrir sig en launahækkannir er eini liðurinn sem er líklegur að hafa áhrif á báðar tegundirnar til hækkunnar.  Að meðaltali er 70% af kostnaði fyrirtækja launakostnaður. Fyrirtækin hafa í raun tvær leiðir að bregðast við þessu þ.e. að hækka verð á vörum sínum eða draga úr framboði þ.e. að draga úr framleiðslu og/eða hætta starfsemi.  Það leiðir til þess að esp verður meiri en framboð og verð hækkar.  Við miklar launahækkanir aukast ráðstöfunartekjur fólks (allavega til að byrja með, áður en verðbólgan étur þær upp). Við auknar ráðstöfunartekjur eykst eftirspurn og þar með verð.

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 7.1.2015 kl. 20:44

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Stefán Örn.

"Fyrirtækin hafa í raun tvær leiðir að bregðast við þessu þ.e. að hækka verð á vörum sínum eða draga úr framboði þ.e. að draga úr framleiðslu og/eða hætta starfsemi."

Þetta er ekki rétt, leiðirnar eru fleiri en bara þessar tvær og um það snýst meginefni pistilsins, að vinda ofan af þeirri villutrú.

Fyrirtæki geta brugðist við hærri launakostnaði með því að draga saman aðra kostnaðarliði, til dæmis arðgreiðslur til hluthafa, og ekki síst fjármagnskostnað sem er í raun stærsti einstaki liðurinn því um helmingur af launakostnaðinum er í raun sá hluti launa launþegans sem hann þarf sjálfur að borga í fjármagnskostnað sem er innifalinn í öllu sem hann þarf að kaupa.

Þannig er það ekki einu sinni rétt að launakostnaður sé 70% því ef tekið væri tillit til hlutdeildar fjármagnskostnaðar í útgjöldum launþega þá getur launakostnaður aldrei verið meiri en 35%, og fjármagnskostnaður er þar af leiðandi stærsti úgjaldaliður bæði heimila og fyrirtækja hvernig sem á það er litið.

Þess vegna er stærsta sameiginlega hagsmunamálið að lækka fjármagnskostnaðinn, hvort sem er með eldi og brennisteini, andasæringum, eða einfaldlega bara með skynsemina að vopni.

Lægri fjármagnskostnaður yrði öllum til hagsbóta. Mikilvægt er að stjórnendur fyrirtækja átti sig líka á því og hagi rekstri sínum í samræmi við þessi einföldu sannindi.

Guðmundur Ásgeirsson, 7.1.2015 kl. 20:53

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Reynslan er ólygnust. Víxlverkanir kaupgjalds og verðlags voru staðreynd aftur og aftur í sjötíu ár. Samt voru árangurslaust reynd alls kyns ráð til þess að stöðva þetta ferli. 1959 var til dæmis reynd lögþvinguð niðurfærsla verðlags og kaupgjalds en það gekk ekki.

1961 var háð verkfall sem endaði með 13% kauphækkun. Ríkisstjórnin felldi strax í kjölfarið gengið um 13%! Tilviljun?

1969 voru sett lög um verðstöðvun sem reyndust vera brandari.

Þjóðarsáttin 1990 skín eins og stjarna í þessari raunasögu.  

Ómar Ragnarsson, 7.1.2015 kl. 22:57

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Víxlverkanir kaupgjalds og verðlags hafa verið ósannaðar fullyrðingar í sjötíu ár og eru það enn. Þar til einhver kemur fram með sannanir, sem hefur aldrei verið gert hingað til.

Hinsvegar bendirðu réttilega á annan punkt sem er kemur mikið betur heim og saman við rökrænar skýringar. Það er 13% gengisfelling sem að sjálfsögðu veldur samsvarandi hækkun á innflutningsverði í krónum talið og veldur þar af leiðandi verðbólgu vegna innlendra verðhækkana á innfluttum vörum og þjónustu.

Eins og er meginefni pistilsins, þá eru slíkar ákvarðanir ekki teknar af launþegum og hafa ekkert beint orsakasamband við launahækkanir. Það að ríkisstjórn ákveði a fella gengið í einni svipan um 13% öllum að óvörum er einfaldlega óstjórn í peningamálum og hvorki launahækkunum né launþegum að kenna.

Þessi kenning um launþegann sem sökudólg hefur verið boðuð í áratugi. Það þýðir ekki að hún sé rétt bara vegna þess að henni hafi verið haldi lengi fram. Kaþóslka kirkjan viðurkenndi til dæmis bara frekar nýlega að jörðin væri ekki flöt. Batnandi er best að lifa.

Guðmundur Ásgeirsson, 7.1.2015 kl. 23:18

7 Smámynd: Starbuck

Ég sé ekki betur en þið séuð að gleyma einum mikilvægum faktor í myndun verðbólgu, nefnilega peningamagni í umferð.  Verðbólga er í rauninni ekkert annað en virðisrýrnun peninga, þ.e.a.s. að minna magn af vörum og þjónustu fæst fyrir sömu krónutölu.  Ef peningamagn í umferð eykst meira á ákveðnu tímabili heldur en vörur og þjónusta þá ýtir það undir virðisrýrnun peninganna = verðbólga.  Svona útskýrir Ólafur Margeirson hagfræðingur þetta fyrirbæri:

Verðbólga er þannig virðisrýrnun peninga vegna aukins peningamagns í umferð umfram þá aukningu sem á sér stað í magni vöru og þjónustu á sama tíma. Þetta þýðir að ef peningamagn í umferð eykst um 5% og magn vöru og þjónustu eykst á sama tíma um 3% getum við gert ráð fyrir því að það verði ca. 2% verðbólga (alls ekki samstundis en vonandi að lokum) vegna þessarar aukningar peningamagns. (sjá: http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Olaf_MArgeirsson/verdbolgan-verdtryggingin-og-raunvirdi-skulda

Hverjir stjórna mestu um það hversu mikið af peningum er í umferð hverju sinni?  Það eru bankarnir - sem búa til peninga úr lausu lofti með útlánum (sjá t.d.: http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Olaf_MArgeirsson/peningar-og-utlan)  Það hversu iðnir bankarnir eru iðnir í útlánastarfseminni hefur mikil áhrif á peningamagn í umferð.  Skýrt dæmi um verðbólguhvetjandi peningaframleiðslu íslensku bankanna átti sér stað þegar þeir fóru á fullt í húsnæðislánabransann árið í kringum 2004.  Verð á húsnæði rauk að sjálfsögðu upp (=verðbólga) þegar framboð á peningum til húsnæðiskaupa jókst skyndilega.

Því miður er er nánast alltaf skautað fram hjá áhrifum og ábyrgð fjármálastofnanna þegar rætt er um verðbólgu og líka ýmsum öðrum þáttum eins og gengisþróun.  Af umræðunni að dæma er engu líkara en flestir stjórnmálamenn og forystumenn hagsmunasamtaka (líka samtaka launþega) séu stöðugt að reyna að sannfæra hinn almenna launþega um að verðbólga eigi sér stað eingöngu vegna launahækkana - að launafólk geti engu öðru kennt um en eigin frekju ef verðbólgan étur upp launahækkanirnar.  Alltaf skal almúginn bera alla ábyrgðina - það talar t.d. enginn um hættulegt launaskrið þegar hærra settir bankamenn hækka í launum, margfalt meira en aðrir. Forystumenn launþegasamtaka ættu að sjálfsögðu að sjálfsögðu að reyna eftir fremsta megni að leiðrétta þessa villandi umræðu en þeir virðast ekki hafa áhuga á því - sennilega vegna þess að þeir hugsa fyrst og fremst um rassgatið á sjálfum sér og samsama sig meira forystumönnum atvinnulífsins heldur en fólkinu sem þeir eiga að vera að vinna fyrir.  Eða (sem ég vona að sé réttari skýring), þeir einfaldlega hafa lítinn skilning á því hvernig hagkerfið virkar.

Starbuck, 7.1.2015 kl. 23:34

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sælir Starbuck.

Þetta er mjög réttmæt ábending hjá þér. Ástæðan fyrir því að ég tók þennan þátt sem þú bendir á ekki með í umfjöllunina var að pistillinn var orðinn svo langur að ég varð að setja endapunkt við hann. Ég er hinsvegar alveg sammála þér um þessi áhrifa útlána bankanna á útþenslu peningamagns, sem valda verðbólgu.

Ég hef nú þegar skrifað marga pistla um það efni sérstaklega, með áherslu á hversu veigamikil áhrif verðtryggingar eru á þetta ferli peningamyndunar í bankakerfinu.

Þessa pistla má náglast með því að lesa aftur í tímann á þessu bloggi. Hér eru aðeins nokkur dæmi:

Aukning peningamagns veldur verðbólgu - bofs.blog.is

Meginorsökin: verðtrygging - bofs.blog.is

Verðtrygging eykur verðbólgu - bofs.blog.is

Verðtryggingarsnjóhengjan - bofs.blog.is

Verðtrygging er jólasveinahagfræði - bofs.blog.is

Verðtryggingin ER hinn undirliggjandi vandi - bofs.blog.is

Indexation considered harmful - bofs.blog.is

Ég vísa til þessa fyrri skrifa varðandi ótvíræða skaðsemi útþenslu peningamagns, að stóru leyti af völdum verðtryggingar.

Guðmundur Ásgeirsson, 8.1.2015 kl. 01:35

9 Smámynd: Starbuck

Guðmundur.  Þú ert náttúrulega búinn að vera mjög öflugur í því að skrifa um þessi mál og pistlarnir þínir eru vandaðir og góðir.

Keep up the good work!

Starbuck, 8.1.2015 kl. 23:01

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sömuleiðis.

Guðmundur Ásgeirsson, 8.1.2015 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband