Upplýsingafrelsi er á niðurleið

Upplýsingafrelsi á Íslandi er á hraðri niðurleið að mati samtakanna Reporters without borders. Auðvelt er að taka undir þessa yfirlýsingu.

Sem dæmi má taka úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 540 frá 8. október 2014. Þar var máli sem snerist um aðgang að upplýsingum um yfirfærslu lána milli gömlu og nýju bankanna, vísað frá nefndinni á vægast sagt hæpnum forsendum.

Hélt nefndin því meðal annars fram að kærandi hefði ekki borið fram kæru sína innan tilskilins kærufrests samkvæmt upplýsingalögum. Staðreynd málsins er hinsvegar sú að kærandi beindi kæru sinni til nefndarinnar áður en honum hafði borist sú ákvörðun fjármálaeftirlitsins sem kærð var, það er að segja: kæran laut að því að beiðni um aðgang að gögnum í vörslu stjórnvaldsins hefði ekki verið svarað innan tilskilinna tímamarka.

Þar sem kæran var borin fram áður en kæranda hafði yfir höfuð borist sú ákvörðun sem kæran sneri að, en kæruefnið var einmitt að ákvörðunin hefði ekki verið tekin tímanlega, er með öllu útilokað að kærufrestur hafi yfir höfuð verið hafinn, hvað þá að hann gæti hafa verið liðinn. Úrskurðarnefndin svaraði erindinu með því að gefa kæranda kost á að koma frekari sjónarmiðum á framfæri í ljósi synjunar fjármálaeftirlitsins, sem hann gerði innan þess frests sem nefndin veitti til þess.

Engu að síður kaus nefndin að líta svo á í úrskurði sínum að um tvær aðskildar kærur væri að ræða og að sú síðari hefði borist eftir að kærufrestur var liðinn, þrátt fyrir að hún hefði í raun borist innan þeirra tímamarka sem nefndin sjálf setti. Þar sem kærufrestur var þá liðinn komst nefndin að þeirri niðurstöðu að hún yrði að vísa málinu frá.

Aumingja nefndin að hafa "neyðst til þess" að vísa málinu frá.

Ef þetta er skoðað ofan í kjölinn blasir við að með þessum úrskurði var úrskurðarnefnd um upplýsingamál aðeins að finna sér átyllu til þess að vísa umræddu máli frá, þar sem um "óþægilegt" mál var að ræða, en það varðar aðgang að verðmati lánasafna sem færð voru frá gömlu bönkunum til nýju bankanna eftir bankahrunið 2008, og er því um gríðarlega mikilvægt hagsmunamál að ræða fyrir íslensk heimili og neytendur.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál er sérstök nefnd á stjórnsýslustigi sem hefur verið falið það hlutverk með lögum að veita borgurunum úrræði til þess að sækja rétt sinn gangvart opinberum stofnunum og aðilum sem neita að veita borgurunum þær upplýsingar sem þeir eiga rétt á að fá. Þegar sú nefnd er hinsvegar farin að beita lagaklækjum til þess að vísa slíkum málum frá án þess að úrskurða um réttindi borgaranna til upplýsinga, er hinsvegar ljóst að sú nefnd er ekki að starfa í þágu almennings og borgaralegra réttinda.

Niðurstaðan er því sú að gagnrýni samtakanna Reporters without borders, eigi fullan rétt á sér. Enda stafar uppplýsingafrelsinu á Íslandi ógn af því að ekki aðeins stjórnvöld, heldur að svokallaðar "óháðar úrskurðarnefndir" á stjórnsýslustigi séu orðnar þáttakendur í yfirhylmingu "óþægilegra" upplýsinga sem kunna að vera fyrir hendi hjá hinu opinbera.

Að öllu framangreindu virtu er ljóst að "gegnsæ og heiðarleg stjórnsýsla" er ennþá bara markmið, sem hefur alls ekki verið uppfyllt hér á landi.


mbl.is Upplýsingafrelsi á Íslandi á niðurleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband