Upplýsingaskylda vegna lánveitinga (SÍ 1991)

Málaferli þau sem nú standa yfir vegna verðtryggðra neytendalána þar sem reynir á lögmæti þeirra, byggjast aðallega á því að lánveitendur hafi brotið gegn upplýsingaskyldum sínum með því að leggja 0% verðbólguviðmið til grundvallar útreikningum á kostnaði og leyna þannig fyrir neytendum raunverulegum áhrifum verðtryggingar á lánskostnaðinn.

Með hliðsjón af þessu er afar forvitnilegt að lesa umsögn Seðlabanka Íslands um hin upprunalegu lög um neytendalán, einkum meðfylgjandi greinargerð bankaeftirlitsins sem var skrifuð 1991, tveimur árum fyrir inngöngu Íslands í EES og innleiðingu á tilskipun 87/102/EBE um neytendalán með lögum nr. 30/1993.

Tilvitnun:

"Efni: Upplýsingaskylda vegna lánveitinga

Bankaeftirlitið hefur tekið saman greinargerð um aukna upplýsingaskyldu lánveitenda gagnvart lántakendum. Upplýsingaskyldan sem um ræðir varðar auglýsingu á virkum vöxtum svo og öðrum atriðum sem nánar er vikið að í eftirfarandi greinargerð."

"Þeir lánveitendur sem upplýsingaskyldan ætti að ná til væru t.d. :

-viðskiptabankar og sparisjóðir

-opinberar lánastofnanir og sjóðir

-aðrar lánastofnanir

..."

Aths.: "Virkir vextir" eru það sama og árleg hlutfallstala kostnaðar.

Tilvitnun:

"Lánveitendur gerðu lántaka skriflega grein fyrir eftirfarandi atriðum áður en til lánveitingar kæmi:

-Virkum vöxtum, [Innsk. árleg hlutfallstala kostnaðar] þ.e. þeirri vaxtaprósentu (á ársgrundvelli) sem út kæmi þegar búið væri að taka tillit til alls þess kostnaðar sem lánið hefði í för með sér. Taka þyrfti fram hvaða kostnaður það væri sem reiknaður væri með í þeirri prósentu. *)

-Nafnvöxtum.

-Hvort vextir séu reiknaðir fyrirfram eða eftirá.

-Hve oft vextir væru reiknaðir á ári.

-Áætlaða greiðsluþörf, skipt niður í upphæð afborgunar nettó, vexti, verðbætur, þóknunarkostnað svo og annan kostnað ef einhver er. Einnig að uppgefin sé árleg afborgun brúttó svo og, sé þess óskað, heildareftirstöðvar  láns."

Aths.: Í síðustu málsgrein er lýst því sem kallast greiðsluáætlun, og verður ekki um villst að þar skuli koma fram, meðal annars, verðbætur. Það geta þær hinsvegar alls ekki gert ef 0% verðbólguviðmið væri lagt til grundvallar þeim útreikningum, eins og varð þó af einhverjum óútskýrðum ástæðum raunin í framkvæmd lánveitenda hér á landi. Það er sú framkvæmd sem samkvæmt þessu er ólögmæt og sem nú reynir á fyrir dómstólum.

Þess má til gamans geta að fram kemur í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarpið til laganna um neytendalán að sá starfsmaður bankaeftirlitsins sem mælti fyrir tilvitnaðri umsögn seðlabankans á fundi nefndarinnar um málið, hafi verið Unnur Gunnardóttir. Hún gegnir núna stöðu forstjóra Fjármálaeftirlitsins, svo það ætti að verða nærtækt fyrir hana að framfylgja niðurstöðu dóms um þessa framkvæmd á upplýsingaskyldu við lánveitingar, um leið og hann mun liggja fyrir.


mbl.is Tekist á um lögmæti verðtryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Lánastofnanir taka upplýsingaskyldu sína ekki nægjanlega alvarlega og álíta t.d. greiðsluáætlun marklaust plagg, sem innihaldi upplýsingar sem ekkert gildi hafi við framkvæmd og immheimtu lánasamnings nema það sem henti þeim, þó svo að sama greiðsluáætlun sé tilgreind hluti samnings og tilgreini árlega hlutfallstölu kostnaðar og í sumum tilfellum heildarlántökukostnað vegna sama samnings. Þess vegna hafa þær ekki hirt um að setja inn önnur verðbólguviðmið en 0% við samningsgerð.

Því miður hefur ekki verið látið reyna á gildi greiðsluáætlunar, árlegrar hlutfallstölu kostnaðar eða heildarlántökukostnaðar í flestum dómsmálum vegna hinna ýmsu lánasamninga neytenda á undanförnum árum, heldur hafa menn keppst við að endurreikna þessa samninga eftir forsendum dóma í málum lögaðila og sætt sig við heildarlántökukostnað sem jafnvel er hærri en samið var um í upphafi. Þetta er rangt að mínu mati. Venjulegir neytendur eiga betri rétt en lögaðilar vegna ákvæða neytendalánalaga, og því hafa slík mál takmarkað fordæmisgildi fyrir neytendur og neytendur eiga ekki að sætta sig við heildarlántökukostnað sem byggður er á endurreikningi eftir slíkum málum.

Ég held að Hrd. 672/2012 sé eitt fyrsta málið þar sem haldið er á lofti að upplýsingar í samningi, þ.m.t. greiðsluáætlun hafi verið ófullnægjandi fyrir innheimtu á lánasamningi neytanda, í þessu tillfelli verðtryggðum. Hæstiréttur tók undir sjónarmið neytanda og úrskurðaði að þar sem samningsskilmálar væru óskýrir teldist íslenskur hluti samnings ekki vera verðtryggður eins og stefndi hélt fram, og bar stefnda Lýsingu að bera hallann af því.

Vonandi skýrast þessi mál þegar úrskurðað verður í dómsmálunum sem frétti fjallar um.

Erlingur Alfreð Jónsson, 6.7.2014 kl. 17:40

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Því miður hefur ekki verið látið reyna á gildi greiðsluáætlunar, árlegrar hlutfallstölu kostnaðar eða heildarlántökukostnaðar í flestum dómsmálum...

Það er einmitt þetta sem er látið reyna á í dómsmáli sem höfðað var fyrir tilstilli Hagsmunasamtaka heimilanna fyrir einu og hálfu ári síðan.

Loksins mun verða dæmt í því máli á komandi hausti.

Guðmundur Ásgeirsson, 6.7.2014 kl. 19:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband