Gjaldeyrishöft í Laugardal um helgina

Á Secret Solstice tónlistarhátiðinni sem fer fram um helgina verður sérstakur gjaldmiðill notaður. Gestir hátíðarinnar munu við innganginn þurfa að skipta utanaðkomandi gjaldmiðlum (þar með talið íslenskum krónum) yfir í staðarmyntina sem er gjaldgeng í öllum viðskiptum inni á hátíðarsvæðinu. Þetta er auðvitað mjög sniðugt viðskiptamódel, að taka fyrst við peningum fólks fyrir tónleikamiða, og svo á  sjálfum tónleikunum er miðinn tekinn, ásamt því sem þá er eftir af peningum tónleikagesta.

Það vera semsagt gjaldeyrishöft í Laugardalnum um helgina. Reyndar fylgir ekki sögunni hvort fólk fær að taka eitthvað af evrum, dollurum eða öðrum utansvæðismyntum með inn á svæðið, en allavega er ljóst að þar verður ekkert hægt að kaupa fyrir þær.

Þetta er athyglisverð tilraun og verður forvitnilegt að fylgjast með afdrifum hennar. Þar á meðal hvort athæfið verði stöðvað af stjórnvöldum í ljósi þess að það varðar líklega við 154. gr. almennra hegningarlaga. Þar segir að sá skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum, sem án heimildar í lögum býr til, flytur inn eða lætur úti handhafabréf, sem notuð kunna að verða til þess að ganga sem gjaldmiðill manna á milli, hvort heldur almennt eða innan sérstaks flokks manna, eða vænta má, að notuð verði á þann hátt.

Ef þetta verður hinsvegar látið óáreitt af gjaldeyriseftirlitinu og efnahagsbrotadeildinni, þá er sennilega komið stjórnsýslufordæmi fyrir því að einkaaðilum sé heimil peningaútgáfa. Verði það niðurstaðan má telja líklegt að mörgum muni þykja það lúxus að geta sjálfir prentað sína peninga hindrunarlaust og án afskipta stjórnvalda.


mbl.is Sérstakur gjaldmiðill í Laugardalnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Uss blessaður þetta mun aldrei ganga. þetta er svo lítið gjaldmiðlasvæði að það mun verða bullandi verðbólga á svæðinu og gengið mun hríðfalla.

Jósef Smári Ásmundsson, 20.6.2014 kl. 20:20

2 Smámynd: Elle_

Í alvöru skil ég þetta ekki alveg, Guðmundur, en það lítur út fyrir að þú einn kærir þig nóg um að skrifa um það í Moggablogginu, enn.  Ef gengið mun kolfalla, eins og Jósef heldur, væri ekki verið að ræna fólk, einu sinni enn?  Það er fólk þarna sem mér er annt um og það skiptir máli að skilja þetta.

Elle_, 20.6.2014 kl. 22:30

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Gengið mun að sjálfsögðu falla niður í núll eftir að hátíðinni lýkur, þar sem þá verður ekki lengur neitt til sölu fyrir þennan gjaldmiðil.

En það er allt í lagi fyrir þá sem ætla að verða búnir að eyða þessum fjármunum áður en helginni lýkur. Þess vegna borgar sig líklega að áætla það fyrirfram og kaupa ekki meira af gjaldmiðlinum en sem þærri áætlun nemur.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.6.2014 kl. 01:00

4 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Heyrðu Elle mín. Ég var að sjálfsögðu að grínast. Hélt að þyrfti ekki að taka það fram.

Jósef Smári Ásmundsson, 21.6.2014 kl. 07:41

5 identicon

Það er náttúrlega rangt að tala um einhver gjaldmiðil þarna, menn eru bara að borga fyrirfram fyrir veitingar og annað sem þarna er til sölu.

ls.

ls (IP-tala skráð) 21.6.2014 kl. 12:31

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það sama á þá væntanlega við um ferðamenn sem kom til Íslands og þurfa að skipta utanlandsgjaldmiðlum í krónur til að versla fyrir meðan þeir eru hér á landi. Þeir hljóta þá að vera "bara að borga fyrirfram" fyrir veitingar og "annað sem er til sölu" í verslunum hér á landi.

Samkvæmt þessu eru gjaldeyrishöft ekkert sérstakt vandamál.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.6.2014 kl. 13:10

7 identicon

Eru þá klippikort í tæki í skemmtigörðum gjaldmiðill?

ls (IP-tala skráð) 21.6.2014 kl. 14:28

8 Smámynd: Már Elíson

Þetta hefur t.d. verið gert í Húsdýragarðinum frá upphafi hans, það að ég veit. - Þú kemst ekki með börnin eða barnabörnin í hringekjuna þar og fleiri áhöld án þess að skipta þeim gjaldeyri sem þú hefur handbæran í einhverja miða eða verðlausa þvottapeninga....

Ekkert nýtt og sennilega löglegt.

Már Elíson, 21.6.2014 kl. 14:36

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Munurinn á þessu og klippikortum eða Húsdýragarðinum er að þau eru eins og strætómiðar eða bíómiðar, þeir gilda bara í einu ákveðnu notkunartilviki. Það er nákvæmlega þetta sem tíðkast í næstum öllum Tívolíum og er venjulegt.

Það sem er hinsvegar óvenjulegt á Secret Solstice er að þar er ekki um að ræða inneignarmiða í tívolítæki eða farmiða í tiltekið farartæki, heldur almennan gjaldmiðil sem á að vera hægt að nota í hvaða viðskiptum sem er inni á svæði. Þannig er væntanlega hægt að kaupa sér bjór á barnum, geisladiska með þeim listamönnum sem eru að spila, boli og aðra minjagripi, og eflaust eru einhver afþreyginartæki á svæðinu líka. Allt er þetta hægt að borga fyrir með þessum tímabundna staðargjaldmiðla sem þarna er í notkun.

Skilgreining á almennum gjaldmiðli og sem skilur hann að frá frímerkjum og strætómiðum er að almennur gjaldmiðill er gjaldgengur sem greiðsla fyrir allt hvað eina sem er til sölu á því myntsvæði sem hann er notaður á. Þessi skilgreining passar fullkomlega við fyrirbærið sem fréttin er um, en passar hinsvegar engan veginn við frímerki eða strætómiða. Ef þú reynir að borga með frímerki næst þegar þú ferð í strætó kemstu að því að það virkar ekki, alveg sama hvað þú reynir að sannfæra bílstjóran um verðgildi merkisins.

Auðvelt er að skera úr um hvort eitthvað sé almennur gjaldmiðill með því að prófa hvort þú getur keypt fyrir hann flest það sem er til sölu (ef þú ert með nógu mikið af honum) en ef það er ekki hægt þá er það meira í líkingu við farmiða eða frímerki sem eru í raun nokkurskonar greiðslukvittanir.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.6.2014 kl. 17:15

10 identicon

Klippikort gildir í mörg tæki, oft mismunandi hversu oft þarf að klippa.

Gjafakort í Hagkaup (ef þau eru til) gilda til að kaupa hvað sem er í Hagkaup. Eru þau þá gjaldmiðill?

Þetta sem þeir eru að selja þarna er í nákvæmlega sambærilegt við gjafakort; þú getur skipt því fyrir vörur sem eru seldar í ýmsum deildum sömu búðar.

Það að þeir kjósa í auglýsingaskyni að kalla þetta e.k. mynt eða eitthvað þess háttar, gerir þetta ekki að gjaldmiðli.

En teljir þú að þarna sé framið lögbrot eins og þú lýsir í pistlinum áttu ekki bara að rövla um það heldur kæra án tafar til viðeigandi yfirvalda.

ls (IP-tala skráð) 22.6.2014 kl. 00:11

11 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Sæll Guðmundur,

þetta á ekkert skylt við gjaldeyrishöft eða gjaldmiðla. Þetta er svipað og inneignanótur eða gjafamiðar í verslunum.

Lúðvík Júlíusson, 22.6.2014 kl. 16:18

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

ls þú misskilur, ég er alls ekki að "rövla" um að þetta sé ólöglegt. Mér finnst þetta þvert á móti mjög spennandi tilraun, og nú er helgin liðin að því er virðist athugasemdalaust af hálfu eftirlitsstjórnvalda á sviði efnahags- og peningamála. Með öðrum orðum þá er komið stjórnsýslufordæmi fyrir því að það sé í lagi að prenta sína eigin gjaldmiðla á Íslandi. Það eru góðu fréttirnar sem ég var raunverulega að vonast til að kæmu út úr þessu.

Eða eins og segir í lokamálsgrein færslunnar minnar:

Ef þetta verður hinsvegar látið óáreitt af gjaldeyriseftirlitinu og efnahagsbrotadeildinni, þá er sennilega komið stjórnsýslufordæmi fyrir því að einkaaðilum sé heimil peningaútgáfa. Verði það niðurstaðan má telja líklegt að mörgum muni þykja það lúxus að geta sjálfir prentað sína peninga hindrunarlaust og án afskipta stjórnvalda.

Lúðvík, samkvæmt því eru allir gjaldmiðlar inneignarnótur, án þess þó að ljóst sé hvaða vörur eða þjónustu sú inneign gildir fyrir eða hve mikið. Ég var í athugasemd #9 búinn að útskýra hvaða skilyrði slík "inneignarnóta" þarf að uppfylla til að teljast vera gjaldmiðill, en það er að hún sé gjaldgeng til kaupa á öllu sem er til sölu á viðkomandi myntsvæði. Secret Solstice gjaldmiðillinn uppfyllti þau skilyrði algjörlega og ég tel ekki þörf á að útskýra það frekar.

Góðar stundir.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.6.2014 kl. 13:04

13 identicon

Leitt að þú skulir ekki hafa skilið þetta. En hvað um það. Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í að útskýra þetta fyrir þér.

ls (IP-tala skráð) 23.6.2014 kl. 13:42

14 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Haha, það er ekkert við þetta sem ég er að misskilja. Ég átta mig alveg nákvæmlega á því hvað þú ert að meina.

Það ert þú sem virðist hinsvegar ekki átta þig nógu vel á því að ég er í rauninni að meina það sama. Tilraunin í Laugardalnum er aðallega merkileg vegna þess að hún sýnir fram á einmitt þetta sem þú ert að segja.

Pappírsgjaldmiðlar eins og evrur, dollara, krónur og annað slíkt, eru í raun ekkert mikið öðruvísi en inneignarnótur, og alls ekkert skárri því það kemur hvergi fram á þeim fyrir hverju inneignin er fyrir. Strætómiði hefur það fram yfir pappírspeninga að hann gildir alltaf fyrir einu fari og þú getur gengið að því vísu að hann heldur því verðgildi eins lengi og þú geymir hann. Fyrir hina svokölluðu penninga veistu hins vegar aldrei hversu mikið þú átt í "inneign" af vörum þegar þú ferð að versla í búðinni daginn eftir, vegna þess að í millitíðinni er bankakerfið búið að prenta meiri peninga og verðfella þá sem voru fyrir.

Lausnin á vanda gjaldmiðilsins okkar er því augljós, förum að fordæmi Secret Solstice og gefum út okkar eigin gjaldmiðil sem er með fyrirfram þekkt og fyrirsjáanlegt verðgildi sem rýrnar ekki út af einhverjum duttlungum, hvorki hjá bankastjórnendum né stjórnmálamönnum.

Ég tel að það sé eftirspurn á Íslandi eftir slíkum gjaldmiðli, og fyrst slík útgáfa er heimili (samkvæmt stjórnsýslufordæminu frá því um helgina) þá er ég komin með frekar gott "business case" fyrir því að hefja slíka starfsemi sjálfur.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.6.2014 kl. 17:52

15 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Guðmundur, takk fyrir svarið en þú svara því ekki í athugasemd #9 hvernig inneignarnóturnar á Secrect solstice séu eitthvað öðruvísi en inneignanótur í verslunum, jafnvel í Smáralind.

Gjaldmiðill þarf að hafa nokkra eiginleika eins og varanleika, hreyfanleika(í tíma og rúmi), deilanleika og einsleitni. Inneignanóturnar á Secret solstice uppfylla ekki fyrstu tvo eiginleikana.

Inneignanóturnar á Secret Solstice fylgja íslensku krónunni. Þetta er notað til að borga kostnað í íslenskum krónum og því hækkar kostnaðurinn augljóslega ef krónan rýrnar.

Það er enginn hlutur í þessum heimi sem hefur fast, þekkt og fyrirsjáanlegt virði. Virði er ekki afstætt heldur hlutfallslegt.

Lúðvík Júlíusson, 23.6.2014 kl. 18:11

16 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Varanleika? Meðallítftíma gjaldmiðla á sögulegum tíma er 27 ár, en breytileikinn er mikill og þegar þeir enda er það yfirleitt með óskipulegum og ófyrirsjáanlegum hætti. Secret Solstice gjaldmiðillinn hafði það fram yfir þetta, að gildissvið hann var fyrirfram skilgreint bæði í tíma og rúmi og því fullkomlega fyrirsjáanlegt. Svo má endalaust hártogast um það hvort þar með séu skilyrði um varanleika uppfyllt.

Hreyfanleika? Já það á vissulega við, en eingöngu innan þess myntsvæðis sem viðkomandi gjaldmiðill gildir á, en utan þess þarf þetta skilyrði ekki að eiga við. Dæmi: Undir Bretton Woods fyrirkomulaginu sem var við lýði frá 1994 til 1971 var aðeins einn gjaldmiðill sem var "hreyfanlegur", bandaríkjadalur, og jafnvel hann var ekki hreyfanlegur í öllum ríkjum til dæmis var ólöglegt að eiga dollara í sumum alræðisríkjum á tímum kalda stríðsins. Allir aðrir þjóðargjaldmiðlar á þeim tíma voru bundnir við landamæri útgefandans. Þetta skilyrði var líka uppfyllt á Secret Solstice, því sá gjaldmiðill var fullkomlega hreyfanlegur innan mynsvæðisins (tónleikasvæðisins) eins og ég benti á hér að ofan.

Deilanleika? Nú átti ég þess því miður ekki kost að sækja hátíðina, en miðað við hvernig þetta var kynnt hlýtur að hafa verið gert ráð fyrir skiptimynt til að gefa til baka þegar fólk verslaði vörur og þjónustu á svæðinu með þessu.

Einsleitni? Hvað þýðir það? Að allir seðlarnir eigi að vera eins á litinn eða í laginu eða að stærð og gerð? Nei það passar augljóslega ekki. Dæmi: krónan hefur margoft breytt um útlit, til dæmis var tíkallinn blár seðill þegar ég var krakki en er núna gráleit málmskífa, 50 kr. voru brúnn seðill og 100 kr. grænn seðill en í dag eru báðir brúngylltar málmskífur. Þegar ég var krakki voru hvorki til 2000, 5000 né 10000 kr. seðlar. Þúsund kall hefur verið seðill frá því ég man, en hann hefur samt breytt um útlit með því að á hann var bætt silfurþynnu, og gullþynnu á 5000 kall ásamt fleiru.

Þannig virðist það eina sem allar þessar myntir og bleðlar eiga sameiginlegt er heitið á þeim og útgefandinn, þ.e.a.s. íslensk króna gefin út af seðlabanka Íslands. Secret Solstice mynt uppfyllir þetta skilyrði fyllilega jafn vel.

(Ég aflaði einu sinni upplýsinga frá seðlabankanum um magn gulls í einum seðli og þynnan er svo þunn að hún er bara örfárra króna virði. Nikkelið og koparinn í myntunum er reyndar meira virði í hlutfalli við ákvæðisverð þeirra.)

Varðandi hugsanlegt flotgengi eða fastgengi, þá ég veit ég ekki til þess að neinar verðbreytingar hafi orðið yfir helgina á meðan hátíðin stóð yfir, en ég geri ráð fyrir að svo hafi ekki verið á þeim stutta tíma. Jafnvel þó við myndum gefa okkur að Secret Solstice myntin væri bundin fastgengi við íslensku krónuna, þá væri það nákvæmlega eins og danska krónan sem er bundin fastgengi við evruna, færeyska krónan sem er á föstu gengi við þá dönsku, eða íslenskan krónan þegar hún var á fastgengi miðað við gull í byrjun síðustu aldar. Allar þessar krónur teljast gjaldmiðlar frekar en inneignarnótur.

Reyndar þá byrjaði evran meira að segja sem fastgengisfyrirkomulag á milli þjóðargjaldmiðla aðildarríkja myntbandalagsins, og ekki hvarflar að neinum að kalla það "inneignarnótur" heldur er það gjaldmiðill.

Það fyrirkomulag að vera með mynt sem stjórnast af fastgengi miðað við erlenda mynt annars þjóðríkis, er á fræðimáli kallað myntráð, og er um leið ákveðin andstæða við sjálfstæðan seðlabanka. Eitt þekktasta dæmið er um slíkt fyrirkomulag er í Hong Kong og hefur verið lýði lengi en á undanförnum árum eru fjölmörg ríki sem hafa verið með slíkt fyrirkomulag í einhverri mynd. http://en.wikipedia.org/wiki/Currency_board#Examples_in_recent_history

Núna hefur a.m.k. ein tónlistarhátíð bæst í þann hóp.

Það er enginn hlutur í þessum heimi sem hefur fast, þekkt og fyrirsjáanlegt virði.

Frá því er ein undantekning: Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.

Virði er ekki afstætt heldur hlutfallslegt.

Virði hluta er reyndar einmitt afstætt. Kíló af vatni er til dæmis miklu meira virði en kíló af gulli. Fyrir þann sem þarf að komast fótgangandi yfir eyðimörk. Hér á Íslandi er hinsvegar víðast hvar ódýrt að verða sér úti um hreint vatn.

Það sem ég held að þessi umræða hafi leitt í ljós er peningar eru í raun ekkert annað en það sem við erum sammála um að séu peningar á hverjum tíma, og það getur verið nánast hvað sem er. Meðal hluta sem hafa verið notaðir fyrir utan pappír og málmskífur eru: steinar, skeljar, útskorin tréprik, og svo auðvitað elsta og versta formið af peningum: skuldarviðurkenningar. Ástæðan fyrir því er að þær komast næst því af þessu öllu að vera í raun ekkert annað en inneignarnótur. Ef vel er að gáð er það reyndar þannig sem núverandi  peningakerfi okkar er uppbyggt, það byggist á skuldsetningu. Vandamálið er hinsvegar að inneignarnótur þessar hljóða upp á inneign í engu sérstöku sem enginn veit hvað er eða hversu mikið verði til af því á einhverjum tímapunkti í framtíðinni. Það sama á jafnframt við um peningana sjálfa, ef vel er að gáð.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.6.2014 kl. 22:45

17 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Sæll Guðmundur, já ég gerði smá mistök þegar ég skrifaði að virði væri ekki afstætt heldur hlutfallslegt... en það er auðvitað sami hluturinn. Í stað "afstætt" átti auðvitað að vera "algilt" :)

Lúðvík Júlíusson, 23.6.2014 kl. 23:44

18 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

OK ég skil, þá erum við líklega alveg sammála um það. :)

Guðmundur Ásgeirsson, 24.6.2014 kl. 01:42

19 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jæja þá er það komið á daginn:

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/06/25/hatidarmynt_secret_solstice_ekki_endurgreidd/

Sér­stak­ur gjald­miðill tón­list­ar­hátíðar­inn­ar Secret Solstice er út­runn­inn og ónýt­ur eft­ir að hátíðinni lauk og verður hvorki skipt í ís­lensk­ar krón­ur né endur­nýtt­ur á næsta ári.

Spá mín um 100% gengisfellingu rættist.

Samkvæmt fréttinni voru þetta "plastpeningar" og í annari frétt af þessu hefur einnig komið fram að þetta var í nokkrum misjafnlega stórum mynteiningum, eins og ég hélt og byggði á í skrifum mínum hér að ofan.

Með öðrum orðum, þá voru þetta plastskífur en ekki úr málmi, en að öðru leyti alveg eins og það sem venjulega er kallað "peningar" bara á smáu og afmörkuðu myntsvæði og með mjög stuttan líftíma.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.6.2014 kl. 01:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband