Menningarnótt Heimilanna 2011

Menningarnótt Heimilanna 2011

Hagsmunasamtök heimilanna verða með fjölskylduvæna dagskrá frá klukkan 13 til 17 á menningarnótt. Við verðum á horni Laugavegar og Skólavörðustígs og munum fagna því í samvinnu við öflugan hóp listamanna að yfir 20.000 undirskriftir hafa safnast í undirskriftasöfnun heimilanna.

Á staðnum verða einnig sjálfboðaliðar samtakanna með nettengdar tölvur fyrir þá sem eiga enn eftir að taka þátt.

Á meðal atriða við hæfi stóra fólksins eru Blússveit Þollýjar, KK og Ellen, Einar Már Guðmundsson, Gimaldin Magister, Hjörtur Howser, Jussanam Dejah, Kristín Tómasdóttir, El Puerco og kór Heimavarnarlisins og Tunnanna, en fyrir smáfólkið verður andlitsmálun, götukrítar, sápukúlur og fleira skemmtilegt í boði

Auk þess munu undirskriftalistar liggja frammi fyrir þá sem vilja taka þátt í söfnuninni upp á gamla móðinn með eigin undirskrift.

Sjálfboðaliðarnir munu einnig veita upplýsingar um undirskriftasöfnunina, s.s. þann þjóðarhag sem almenn lánaleiðrétting þjónar, þá almannahagsmuni sem verðtryggingingin gengur berlega gegn og þá meinbugi sem Hagsmunasamtök heimilanna sjá á framkvæmd hennar. Hvað það síðasttalda varðar, þá hafa samtökin sem kunnugt er leitað eftir áliti Umboðsmanns alþingis og bíður embættið nú skýringa Seðlabanka Íslands á því hvort og þá hvaða lagastoðir reglur bankans um verðtryggingu styðjist við.

Ekki er enn ljóst hve margir alþingismenn verða á meðal sjálfboðaliða, en þeim hefur öllum verið boðið að leggja fram aðstoð sína við undirskriftasöfnun heimilanna á Menningarnótt. 

Dagskrá:

13:00 Blússveit Þollýjar, tónlist

13:30 KK og Ellen, tónlist

14:00 Einar Már Guðmundsson, upplestur

14:30 Jussanam Dejah, tónlist

15:00 Gimaldin Magister, tónlist

15:30 Kristín Tómasdóttir, upplestur

16:00 Kór Heimavarnarliðsins og Tunnanna

16:30 Elías Bjarnhéðinss, tónlist

Sjáumst á Menningarnótt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband