Bankarán ennþá í tísku? Svoooo 2008!

"Tveir menn reyndu að fremja bankarán í útibúi Arion-banka í Hraunbæ í  morgun, þeir komust undan og leitar lögreglan nú að þeim." segir í fréttum í dag.

Árið 2008 voru allir stærstu bankar landsins tæmdir innan frá, reyndar er núna talið að ránið hafi staðið yfir allt frá árinu 2007 eða jafnvel lengur. Að sögn rannsóknarnefndar Alþingis eru hinir seku fjölmargir, þar á meðal helstu eigendur og stjórnendur bankanna og embættismenn sem létu framferði þeirra óáreitt. Þeir komust allir undan, en enginn leitar að þeim. Það er meira að segja vitað hvar flestir þeirra eru niðurkomnir, en þrátt fyrir það ganga þeir lausir, og hafa það meira að segja margir hverjir ansi gott miðað við landsmenn almennt.

Með þessari málsmeðferð hafa stjórnvöld skapað hættulegt fordæmi: það borgar sig að ræna banka, og því meira sem þú stelur því meiri líkur á að þú komist upp með það. Ekki nóg með það heldur eru góðar líkur á því að ríkisvaldið muni bregðast við með því að henda í þig meiri peningum eins og dæmin sanna í tilvikum Sjó(ð)vár, flAskar/Ávant og Versta Banka Sögunnar (VBS). Á meðan þetta fordæmi er til staðar má fastlega búast við því að bankarán verði áfram í tísku og muni heldur færast í aukana. Það sem virðist vera arðbærasta viðskiptamódel undanfarinna þriggja ára getur ekki annað en laðað til sín fleiri fjárfesta. Stjórnvöld sem láta slíka lögleysu viðgangast eru hinsvegar með því að kalla glæpaöldu yfir þjóðfélagið, sem á mannamáli er aðför gegn almannahagsmunum og flokkast því undir landráð.

Í gær bárust fréttir af því að eitt glæpahreiðrið hefði verið úrskurðað í annað sinn brotlegt við gildandi lög og gerða samninga. Með ólögmætum innheimtuaðgerðum (sem kallast á mannamáli fjárkúgun) hafa þessi og önnur skipulögð glæpasamtök haft ómældar fjárhæðir af því fólki sem í sakleysi sínu taldi sig vera viðskiptavini hjá heiðvirðum og löghlýðnum fyrirtækjum. Í dag kom svo yfirLýsing um að þrátt fyrir úrskurði Neytendastofu og áfrýjunarnefndar neytendamála standi til að halda áfram hinni tilhæfulausu innheimtu eins og ekkert hafi í skorist. Gildir þá einu þó athæfið kunni að vera refsivert, enda er komið fordæmi fyrir því að slíkum lögum sé einfaldlega ekki framfylgt.

Á meðan þetta ástand er viðvarandi mun koma á óvart hver sá dagur sem rennur sitt skeið, án þess að reynt hafi verið að fremja bankarán á Íslandi. Það er einfaldlega búið að festa það í sessi sem viðurkennda aðferð til framfærslu, og þá einu sem virðist borga sig í þokkabót. Þessu hafa stjórnvöld leyft að gerast þrátt fyrir hávært ákall fjölmargra landsmanna á Austurvelli og víðar um réttlæti, og að þessi lögleysa verði upprætt svo hér verði hægt að moka yfir rústir glundroðans og byggja upp einhverskonar siðmenningu að nýju.

Því miður hafa skilaboðin engu breytt um framferði stjórnmálastéttarinnar og því aðeins hægt að draga af því eina ályktun: að þau vilji hafa þetta svona. En stjórnvöld sem vilja viðhalda spilltu og glæpsamlegu þjóðfélagsástandi eru auðvitað ekkert annað en þáttakendur í glæpnum og fullkomlega meðsek. Þegar slíkir einstaklingar hafa komist til valda er það borgaraleg skylda allra þegna landsins að steypa þeim af valdastólum sínum, fyrst með góðu og svo ef það dugar ekki, þá með illu. Ég er ekki að hvetja til átaka heldur einfaldlega þess að landslögum verði framfylgt, og ef löggæsluyfirvöld halda áfram að hunsa þá skyldu verða borgararnir sjálfir að taka verkefnið að sér.

Hvað hefði dómur sögunnar sagt um Tyrkja-Guddu ef hún hefði staðið á Ystakletti með logandi kyndil, og vísað skipum alsírsku ræningjanna veginn um innsiglinguna til Vestmannaeyja?

VIÐBÓT: Nú hefur lögreglan víst brugðið á það ráð að birta myndir af ráninu á Facebook í von um að borin verði kennsl á ræningjana.

Er ekki örugglega verið að grínast? Facebook? Hvað næst? Myndir af búðarhnupli á morgunkornskössum og mjólkurfernum? "Hefur þú séð þennan búðarþjóf? Hann stal hangikjötslæri og skal lifa við eilífa fordæmingu!" Ef þetta er þau verkfæri sem lögreglan treystir á í starfi sínu er kannski ekki furða þó flestir alvöru glæpamenn á Íslandi gangi enn lausir.


mbl.is Reyndu að ræna banka í Hraunbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll, það er greinilegt að sumir fylgjast ekki nógu vel með, eins og þessir náungar sem reyndu að ræna Arion banka. Þeir hafa greinilega ekki frétt að það er búið að ræna bankann. Þeir eru bara einfaldlega of seinir.

En það er kannski ekki skrítið að þeir skuli ekki hafa tekið eftir þessu. Löggan hefur líka misst af stóra ráninu í bönkunum. Hún er ekki farin að gera neitt í því að upplýsa það mál.

Þetta er alveg óskiljanlegt hvað menn taka illa eftir.

Jón Pétur Líndal, 5.1.2011 kl. 20:48

2 Smámynd: Örn Gunnlaugsson

Þeir hljóta eiginlega að hafa verið að grínast. Búið að tæma bankann að mestu. Ef eitthvað var eftir þá íslenskar krónur. Á ekki að tilnefna svona menn til grínverðlauna?

En skilaboðin eru skýr, það hlýtur að mega ræna banka á Íslandi. Amk. er ekkert byrjað að hrófla við alvöru bankaræningjunum ennþá - og verður sennilega ekki gert.

Örn Gunnlaugsson, 5.1.2011 kl. 21:46

3 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Sælir við skulum ekki gefast upp nú básum við til sóknar gegn mafíunni við höfum ekkert val!

Sigurður Haraldsson, 5.1.2011 kl. 22:29

4 identicon

Jón Pétur og Örn

Hafið þið öruggar upplýsingar um það sem þið skrifið?

JP: "Hún er ekki farin að gera neitt í því ..."

ÖG: "... ekkert byrjað að hrófla við alvöru bankaræningjunum ..."

Engar fréttir hafa nefnilega borist um það sem þið segið, svo ég velti fyrir mér heimildum ykkar : )

Eygló (IP-tala skráð) 5.1.2011 kl. 23:16

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Frábær pistill, ég setti hann á Fésbókina mína...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 5.1.2011 kl. 23:19

6 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Eygló, það komst upp fyrir rúmum 2 árum að það voru allir bankar í landinu galtómir, sett neyðarlög til að skuldfæra ríkissjóð fyrir töpuðum innistæðum á almennum bankareikningum o.s.frv. Samt situr enginn í steininum út af þessu. Það að engar fréttir hafa borist af því sem við erum að segja um þetta hlýtur að benda sterklega til þess að það sem við erum að segja sé hárrétt. Að löggan og saksóknarar hafi ekki tekið vel eftir. Nema eitthvað enn verra sé ástæðan fyrir þessu aðgerðaleysi.

Hvernig getur ríkið tekið á sig á annað þúsund miljarða peningahvarf úr bönkunum án þess að málið sé rannsakað og þeir sem bera ábyrgð á tapinu fari í steininn? Af hverju er verið að eltast við menn sem koma með grjót í hendi inn í banka og virðast ætla að ræna nokkur hundruð þúsund krónum eða kannski nokkrum milljónum ef það er ekki enn búið að finna þá sem stálu nokkur þúsund milljörðum fyrir allra augum. Og allir menn með opin augu og smá hugsun eru fyrir löngu búnir að finna út hverjir það voru.

Og hvernig í ósköpunum getur þú efast um að það sem ég er að segja sé rétt? Hver er þín skýring á peningahvarfinu ef mín skýring er röng? Fyrir alla muni, upplýstu mig svo ég þurfi ekki að vaða í villu lengur með þetta mál.

Jón Pétur Líndal, 5.1.2011 kl. 23:42

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Vissulega hefur "eitthvað" verið gert, sérstakur saksóknari og málarekstur skilnefndanna og allt það. Ég tek það fram að mér finnst að sjálfsögðu eðlilegt að lögreglan hafi brugðist við þessari tilraun til bankaráns í morgun. En ég held að það sé hinsvegar hollt að setja hlutina í samhengi og mæla svo útkomurnar.

Strákarnir sem gerðu það sem virðist hafa verið illa ígrunduð tilraun til bankaráns í morgun, voru að reyna að ræna seðlum úr einu útibúi. Til þess að átta sig á því hvað er í húfi er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að ránsfengurinn hefði aldrei getað orðið annað en reiðufé, þ.e.a.s. seðlar. En seðlar og mynt í umferð eru aldrei meira en 5-10% af peningamagninu, restin eru skuldir og bankainnstæður eða það sem kalla má rafræna peninga. Á Íslandi er reiðufé í umferð ekki nema á bilinu 25-30 milljarðar þar með talið skiptimynt í verslunum o.þ.h., seðlabirgðir í bankaútibúum, og meira að segja það litla sem þú ert e.t.v. með í veskinu þessa stundina. Í hverju bankaútibúi eru aldrei nema takmarkaðar birgðir af reiðufé til staðar, og frammi hjá gjaldkera eru aldrei meira en einhverjar milljónir í seðlum, ef þú þarft að taka út stærra þarftu líklega að tala við þjónustufulltrúa og fá það afgreitt sérstaklega. Með öðrum orðum þá voru þessir ungu menn, hvort sem þeir gerðu sér grein fyrir því eða ekki, aldrei í tæri við möguleikann á því að stela meiru en í mesta lagi eins miklu og þeir gátu borið, nokkur búnt af fimmþúsundköllum sem voru þar að auki líklega númeraðir og rekjanlegir.

Bankamafíósarnir voru miklu stórtækari. Þeir höfðu að því er virðist óheftan aðgang að hinum 90-95% af peningamagninu, því sem er aðeins til sem bókhaldsfærslur í bönkunum. Athafnasemi þeirra hljóp á þúsundum milljarða króna, og tilfinnanlega stór hluti þess virðist, án þess að vera að fella einhverja sérstaka dóma, hafa verið tómt sukk og svínarí. Ástæðan fyrir því að erfitt er að mæla skaðann er einmitt vegna þess hversu mikill hann er. Þarna var stolið mörgþúsundfalt meiri peningum en tveir menn geta borið í fimmþúsundköllum. Til þess að fela slóð peninganna voru ráðnir í vinnu færustu sérfræðingar á sviði skattaundanskota, aflandsfélaga, fjármálaverkfræði, og allskonar ábyrgðarfirringar hvaða nafni sem hún nenist og hversu dýri verði sem hún var keypt, mútur heitir það á mannamáli. Þetta var ekkert annað en stórfelld, þaulskipulögð glæpastarfsemi, PUNKTUR. Brotastarfsemin stóð yfir um árabil og byggði í kringum sig net spilingar sem gegnsýðri þjóðfélagið og ógnaði tilvist þess þannig að enn sér ekki fyrir endann á tjóninu og vandræðunum!

Í öðru tilvikinu voru tveir meintir gerendur eftirlýstir af lögreglu, einn maður handtekinn og játning lá fyrir strax á fyrsta degi. Í hinu tilvikinu hefur það legið nokkuð ljóst fyrir strax frá fyrsta degi hverjir kynnu að bera sök eins og hefur sífellt verið að koma betur í ljós og þar er um að ræða stóran hóp einstaklinga, en nú tveimur árum síðar ganga þeir allir enn lausir þrátt fyrir að vitað sé hvar flestir þeirra eru niðurkomnir.

Þetta finnst mér vera umhugsunarvert.

Guðmundur Ásgeirsson, 6.1.2011 kl. 03:17

8 Smámynd: Örn Gunnlaugsson

Eygló, ég hef nokkuð öruggar heimildir. Mín kæra á hluta þessara bankaræningja er aðeins til skoðunar frá sérstökum skv. bréfi hans til mín. Enginn þessara aðila hefur enn verið ákærður ekki einu sinni glæpamennirnir í fjármögnunarfyrirtækjunum sem Hæstiréttur hefur þó staðfest að hafi brotið lög.

Kærum sem lagðar eru fram hjá ríkislögreglustjóra á hendur þessum skúrkum vegna ólögmætra og í sumum tilvikum tilhæfulausra vörslusviptinga er stungið undir stól og reynir embættið að koma sér hjá því að taka á þessum þrjótum. Viðbrögð lögreglunnar eru talsvert sprækari þegar eitthvart ógæfufólkið reynir að hnupla einhverjum smáaurum sér til framfæris.

Ég held að heimildir manna að þessu leyti séu bara býsna traustar.

Þetta með morgunkornspakkana og mjólkurfernurnar er bara nokkuð góð hugmynd. Þar ættu að vera myndir af þeim sem settu hér allt í kaldakol. En það er ekki nóg að finna þrjótana ef ákæruvaldið ætlar ekki að vakna af Þyrnirósarsvefninum.

Örn Gunnlaugsson, 6.1.2011 kl. 08:45

9 identicon

Getur ekki verið að pólitísk tengsl stórþjófanna eru svo sterk að þeir eru verndaðir af stjórnmálalegum tengslum sínum við flokkana auk þess er þýfi þeirra það mikið að næga peninga er hægt að greiða lögfræðingaliðinu fyrir aðstoð og endurskoðundum fyrir að fela slóðina, það var verst að litlu þjófarnir náðu engum peningum þannig að ákæruvaldið hefur lítið á þá nema valda hræðslu hjá bankafólkinu. Stórþjófarnir virðast vera verndaðir af hinu háttvirta Alþingi, það virðist geta lagst lágt ef vernda þarf flokksgæðinga sína. Það er ekki skrýtið þó almenningur hafi litla trú á störfum hins háverðuga Alþingi það er að rotna innanfrá, án þess að átta sig á því.

Sigurgeir Árnason. (IP-tala skráð) 6.1.2011 kl. 11:19

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Guðmundur minn,

"hvað höfðingjarnir hafast að, hinir meina sér leyfist það!"

Jón Valur Jensson, 6.1.2011 kl. 15:22

11 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Þeir skildu ekki strákarnir að  ÞEIR ÞURFA AÐ VINNA Í BANKANUM og ræna innanfrá- ekki svona aulagang !

fólk sem gerir svona endar í Steininum- engir lögmenn eða neitt !

Erla Magna Alexandersdóttir, 8.1.2011 kl. 19:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband