Kostnaður skattgreiðenda vegna Landsbankans (uppfærður)

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um yfirtöku ríkisins á innlendu starfseminni hef ég áætlað kostnað íslenskra skattgreiðenda við að þrífa upp eftir rekstur gamla Landsbankans. Þetta mat er hér uppfært í samræmi við nýjustu tíðindi í tengdri frétt. Þar er reyndar ekki sagt frá heildarkaupverði fyrir krónubréfin í Lux en fram kemur að stærstur hluti þess sé greiddur með 402 milljón Evra skuldabréfi sem jafngildir á núverandi gengi u.þ.b. 65 milljörðum króna. Ef gert er ráð fyrir að "stærstur hluti" þýði a.m.k. 50% þá er heildarverð bréfanna að hámarki 130 milljarðar, og því verður notast hér við verðbilið 100-130 milljarðar en í fyrra mati voru efri mörkin dálítið hærri. Samanlagt lítur þetta svona út, án þess að IceSave sé tekið með í reikninginn:

  • 140 milljarða kaupverð ríkisins fyrir yfirtöku NBI hf. 
  • 208 - 280 milljarða skuldsetning NBI (gagnvart skilanefnd)
  • 100 - 130 milljarða lausnargjald fyrir pappíra í Luxembourg
  • 80 milljarða veðlánatap Seðlabanka Íslands (repo viðskipti)

Samtals gera þetta á bilinu 528 - 635 milljarða króna úr vasa skattgreiðenda og athugið að það er fyrir utan hugsanlegan kostnað við ríkisábyrgð vegna IceSave, án tillits til vaxta og gengisáhættu. Á móti kemur reyndar eign sem er innlenda starfsemi Landsbankans, en þegar bankinn var einkavæddur á sínum tíma var sú eign metin á 25 milljarða, sem er minna en skekkjan í þessari ágiskun og innan við 5% af heildarkostnaðinum miðað við neðri mörkin!

Ég vek sérstaklega athygli á því að þessir upphæðir eru teknar beint úr vasa okkar skattgreiðenda,  og fara þaðan til annars vegar fjármagnseigenda sem áttu innstæður í Landsbankanum og hinsvegar til skilanefndarinnar og þaðan beint upp í IceSave kröfur Breta og Hollendinga. Þannig er það í raun og veru kaupsamningurinn milli ríkisins og skilanefndarinnar sem tryggir öðru fremur margumræddar "góðar endurheimtur" upp í tapaðar innstæður, sem er engu að síður á kostnað almennings. Með slíkum bókhaldsbrellum vil ég meina að búið sé að ríkisvæða bankann að fullu, þar með talið þau vinnubrögð sem þar hafa tíðkast fram að hruni! 

Hér má svo rekja færslur þar sem ég hef fylgt þessu máli eftir:


mbl.is Ríkið kaupir skuldabréf í Lúx
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ættir að lesa fréttina betur og aðrar um málið

Þetta er á engan hátt einhver 100ma kostnaður. Seðlabankinn er að kaupa ríkisbréf og inneignir í banka. Á genginu 250kr/evran.

Björn Friðgeir (IP-tala skráð) 19.5.2010 kl. 18:39

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Í fréttinni kemur skýrt fram að um er að ræða skuldabréf gefin út af Avens BV dótturfélagi Landsbankans, sem ríkið er að kaupa af seðlabanka Luxembourg og greiðir "stærstan hluta kaupverðsins" með skuldabréfi upp á 402 milljónir Evra sem á núverandi gengi jafngildir um 65 milljörðum króna. Hinsvegar kemur ekki fram hver heildarkostnaðurinn er og því notast ég við ágiskun sem byggir á þessum staðreyndum.

Samkvæmt fyrri fréttum um málið hefur þessum skuldabréfum verið haldið í gíslingu af seðlabankanum í Luxemborg og hafa hindrað að hægt sé að ljúka við uppgjör á þrotabúi gamla bankans.

Björn Friðgeir, þú ættir kannski að lesa fréttina betur og aðrar um málið.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.5.2010 kl. 18:56

3 identicon

"Samkvæmt samkomulaginu mun Seðlabanki Íslands fá full yfirráð yfir eignum Avens B.V. , sem er stærsti einstaki eigandi krónueigna utan Íslands, en krónueignir þess nema um 120 ma.kr. eða um fjórðungi allra krónueigna erlendra aðila. Röskur þriðjungur þeirra eru innstæður í bönkum en tveir þriðju hlutar eru skuldabréf gefin út af ríkissjóði eða með ábyrgð hans."

http://sedlabanki.is/?PageID=13&NewsID=2467

"Seðlabanki Íslands greiðir fyrir kaupin með 402 milljóna evra skuldabréfi útgefnu af ríkissjóði til fimmtán ára, 35 milljónum evra í reiðufé og 6 milljörðum króna í reiðufé. "

http://eyjan.is/blog/2010/05/19/sedlabankinn-fekk-erlendar-kronueignir-a-vildarkjorum/

Engra ágiskana þörf. Enginn 100ma kostnaður. Krónubréf ríkis og banka innstæður keypt fyrir evrur

Björn Friðgeir (IP-tala skráð) 19.5.2010 kl. 19:05

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þetta eru samt peningar sem ríkið innir af hendi, í erlendum gjaldmiðli NB.

VB.is : Avens lausnin: Erlendar skuldir ríkisins aukast um 65 milljarða króna

Guðmundur Ásgeirsson, 19.5.2010 kl. 19:32

5 identicon

Já og fær á móti íslenskar krónur. Á hagstæðu gengi m.v. skráð. Og leysir hluta af vandanum sem felst í krónueign útlendinga. Þú getur EKKI kallað þetta kostnað.

Björn Friðgeir (IP-tala skráð) 19.5.2010 kl. 19:37

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Gott og vel Björn Friðgeir, ég ætla ekki að hártogast um þetta við þig. Ég mun fara betur yfir málið, og eins og fram kemur í því sem ég hef skrifað um þetta er um óformlegt mat að ræða sem er háð sífelldri endurskoðun eftir því sem meiri og betri upplýsingar berast.

Mig langar þá að biðja þig, ef þú getur útskýrt það fyrir mér, hvernig eignarhaldi og uppgjöri þessa Avens fyrirtækis er háttað. Ef ég skil rétt þá á þetta dótturfélag gamla Landsbankans 80 milljarða króna í ríkisskuldabréfum, sem það lagði að veði í seðlabanka Lux gegn Evruláni þaðan. Evrurnar eru löngu gufaðar upp, en veðsettu bréfin sitja þarna föst. Með því að selja bréfin er Seðlabanki Lux einfaldlega að innheimta veðið, sem er eðlilegt, en þannig er íslenski seðlabankinn í rauninni að borga upp lánið sem upphaflega var tekið af félaginu í Evrum. Hvað verður svo um þetta félag Avens, og eignir þess, yfirtekur íslenska ríkið þær, hvaða áhrif hefur þetta á þrotabú Landsbankans o.s.frv.? Ef þú getur útskýrt þetta betur Björn Friðgeir þá væri það ágætt.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.5.2010 kl. 22:34

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Það er átakanlegt að horfa upp á þetta. Ríkið undir forystu stjórnar hinna vinnandi stétta er látið fjármagna glæpastarfsemi Landsbankans. Við erum síðan (ennþá) nógu miklar rolur að láta bjóða okkur þetta sem skattgreiðendur og borgarar.

Það skiptir ekki öllu hvort þetta eru 100 eða 120 milljarðar. Þetta eru peningar sem Landsbankinn sveik út úr Seðlabankanum í Lúxemborg með peningum sem hann vélaði út úr Seðlabanka Íslands í ástarbréfaviðskptum. Sjá nánari skýringar í fréttum á Visir.is.

Evrurnar eru síðan eflaust í einhverjum bankahólfum á Tortola, ef maður þekkir þessa drullusokka í gamla Landsbankanum rétt.

Ef Seðlabankinn hér hefði stöðvað Landsbankann áður en kom til ástarbréfaruglsins hefði þetta ekki gerst. Þetta er skipulögð glæpastarfsemi og ekkert annað. Við borgum.

Theódór Norðkvist, 19.5.2010 kl. 23:45

8 identicon

"í rauninni að borga upp lánið"

Það skiptir í sjálfu sér engu máli hvaðan þessi ríkisskuldabréf og innistæður eru komnar sem eru fastar þarna úti, þær hefðu eins getað verið þar sem eign sem erlendur aðili hafði keypt beint, það sem skiptir máli er að fá þetta heim. Og á góðu verði. Það má gera ráð fyrir að þar sem þetta var Seðlabanki Lúx hafi það verið auðveldari samningaviðræður en við aðra eigendur krónubréfa

"Hvað verður svo um þetta félag Avens, og eignir þess, yfirtekur íslenska ríkið þær"

Eignarhaldsfélag í eigu Seðlabankans yfirtekur þær, lestu það sem ég póstaði og aðrar fréttir frá í gær. Kom allt fram þar.

"hvaða áhrif hefur þetta á þrotabú Landsbankans "

Ekki hugmynd, kemur ekki málinu við.

Og þó, Seðlabanki Lux er greinilega löngu búið að taka þessar eignir upp í kröfur þannig það er væntanlega löngu búið að gera ráð fyrir þessu í uppgjöri þrotabúsis. Og breytir þar af leiðandi engu þar um.

Og því er þetta á engan hátt einhver aukakostnaður ríkis vegna Lanzans. Þetta er ekki flókið, þú þarft bara að viðurkenna að þú hafir misskilið þessi viðskipti.

Theódór: Þessi bréf sem Landsbankinn lagði þarna fram voru ekki peningar sem hann "vélaði út úr Seðlabanka Íslands í ástarbréfaviðskptum", heldur skuldabréf sem bankinn átti. Þetta eru svipuð viðskipti (án milliliðs í tilviki Lúx) en ekki í raun skyld.

Björn Friðgeir (IP-tala skráð) 20.5.2010 kl. 05:43

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Björn Friðgeir, lestu þessa frétt:

Landsbankinn notaði Avens til að mjólka BCL 

Theódór Norðkvist, 20.5.2010 kl. 14:03

10 identicon

Theódór: Aha. Nett flétta. Sorrí!

Björn Friðgeir (IP-tala skráð) 20.5.2010 kl. 14:58

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Björn Friðgeir. Ef það er eitthvað sem ég skil ekki rétt við þennan gjörning kann að vera að það stafi af misvísandi fréttaflutningi. Ég er búinn að vera að fylgjast með þessu máli frá upphafi, þ.m.t. því sem snýr að þessum bréfum í Luxembourg, en fyrst þegar þau komust í umræðuna var talað um að hugmyndin væri að íslenska ríki leysti út þessi bréf gegn "lausnargjaldi" sem væri reyndar lægra en raunvirði, en bréfin rynnu hinsvegar í þrotabú Landsbankans og kæmu til uppgjörs þar vegna IceSave kröfunnar. Ef þetta er ekki rétt, og eins og þú segir að ríkið fái þessi bréf til eignar, þá er það alls ekkert slæmt heldur bara í ósamræmi við fyrri fréttir af málinu. Ef ég hef að einhverju leyti rangt fyrir mér þá stafar það líklega af þessu og ég get þá fúslega viðurkennt það. Eins og áður sagði er um mat að ræða sem er háð sífelldri endurskoðun efir því sem betri og réttari upplýsingar berast. Takk fyrir innleggið báðir, Björn og Theodór, og að taka þátt í umræðunni.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.5.2010 kl. 16:15

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

VIÐBÓT. Í þeim umræðum sem fóru fram hér í athugasemdunum komu fram vangaveltur m.a. um hugsanleg tengsl milli þessara kaupa Seðlabankans á skuldabréfum og uppgjör þrotabús Landsbankans í Luxembourg. Máli mínu til stuðnings vísaði ég til eldri frétta um sama mál þar sem því var stillt þannig upp að uppgjör Landsb. í Lux velti einmitt á því að umrædd skuldabréf verði leyst út úr seðlabanka hertogadæmisins, og jafnframt fullyrt að við það myndi endurheimtuhlutfall vegna IceSave hækka um tugi milljarða. Ég held því fast við þá skoðun að um sé að ræða útlagðan kostnað sem sé gagngert til að liðka fyrir uppgjöri vegna Landsbankans. Hver vegna? Jú, vegna þess að Seðlabankinn er að kaupa þessi krónubréf fyrir Evrur, í stað þess að ríkið borgi af þeim í krónum sem er útgáfugjaldmiðill þeirra. Afhverju skiptir það máli? Vegna þess að krónur eru "ókeypis" fyrir Seðlabanka Íslands (að prentkostnaði undanskildum) en Evrur kosta hinsvegar beinhörð útflutningsverðmæti. Björn Friðgeir, sem er á öndverðum meiði, hefur fært rök fyrir sinni afstöðu og hugsanlega höfum við báðir eitthvað til síns máls, ég læt öðrum eftir að skera úr um það.

Meðfylgjandi er tengill á nýja færslu sem ég skrifaði til að vekja athygli á þessari tengingu, og þar er að finna upprifjun á eldri umfjöllun um málið sem vonandi verður til þess að varpa ljósi á mína afstöðu:

Engin formleg tengsl, EN...! - bofs.blog.is

Guðmundur Ásgeirsson, 29.5.2010 kl. 13:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband